Fréttir eftir árum


Fréttir

Safna fyrir alþjóðlegri málflutningskeppni

10.3.2014

Sex manna lið laganema úr HR æfir stíft þessa dagana fyrir alþjóðlega málflutningskeppni sem fram fer í Vínarborg í byrjun apríl. Keppt verður í alþjóðlegum gerðardómsrétti og alþjóðlegum lausafjárkaupum og þurfa liðin bæði að bregða sér í hlutverk sækjanda og verjanda í erfiðu máli.

Það reynir því á ræðusnilld, sannfæringarkraft og síðast en ekki síst góða röksemdafærslu fyrir málinu.

Fjórir af nemendunum sex sem liðið skipa eru að skrifa meistararitgerð í lögfræði og tveir eru á fjórða ári. Þetta eru þau Lena Mjöll Markúsdóttir, Ásdís Auðunsdóttir, Anton Birkir Sigfússon, Grímur Már Þórólfsson, Eygló Sif Sigfúsdóttir og Skúli Hakim Mechiat.

Í október síðastliðnum var þeim úthlutað tilbúnu máli sem þau hafa undirbúið og flytja í keppninni Willem C. Vis í næsta mánuði. Þar verða 250 lið laganema hvaðanæva úr heiminum. „Allir eru að kljást við sama vandamál sem við höfum fengið nokkra mánuði til að undirbúa. Við byrjuðum á að skila inn stefnu og greinargerð, stefnunni skiluðum við í desember og greinargerð í lok janúar,“ útskýrir meistaraneminn Lena Mjöll.

Laganemar HR

„Við erum báðum megin, stefnandi og verjandi sitt á hvað. Núna erum við að semja ræður og æfa okkur að flytja ræðurnar, undirbúa málflutning og keppa hvert við annað. Við erum líka búin að keppa á netinu í keppni á vegum Pace-háskólans í Bandaríkjunum,“ segir Lena. Þar fengu þau umsögn og tókust á við tvö lið, annað bandarískt og hitt pólskt. Notast var við fjarfundarbúnað svo keppendur gætu séð mótherjana og dómarana. „Dómararnir grípa inn í og spyrja spurninga í miðri ræðu og reyna svolítið að slá mann út af laginu,“ segir hún.


Lesa viðtalið í heild sinni á mbl.isGrímur Már Þórólfsson, Ásdís Auðunsdóttir, Lena Mjöll Markúsdóttir og Skúli Hak- im Mechiat. Á myndina vantar Anton Birki Sigfússon og Eygló Sif Sigfúsdóttur.

Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 7. mars 2014.