Fréttir eftir árum


Fréttir

Frumkvöðlar úr HR verðlaunaðir

10.3.2014

Úrslit í Gullegginu, frumkvöðlakeppni á vegum Klak Innovit, voru afhent í HR laugardaginn 8. mars sl. Þær hugmyndir sem höfnuðu í þremur efstu sætunum eiga það sameiginlegt að á bak við þær standa nemendur tölvunarfræðideildar HR.

Sigurvegarar í Gullegginu árið 2014 var fyrirtækið Gracipe þar sem mataruppskriftir eru settar fram á nýjan hátt með því að sameina hráefni, aðgerðir og skref í myndrænni framsetningu. Á meðal þeirra sem eru á bak við hugmyndina er Herdís Helga Arnalds, nemi á fyrsta ári í tölvunarfræði við HR.

Gulleggið 2014

Ráðherra, tveir af fjórum hugmyndasmiðum Gracipe og fulltrúi Landsbankans.

Annað sætið skipuðu félagar úr tölvunarfræðideild HR sem stofnuðu leikjafyrirtækið Radiant Games. Með því að þróa leiki fyrir börn stefna þeir að því að nútímavæða menntun og þróa næstu kynslóð námsgagna.

Gulleggið 2014 Radiant GamesFulltrúar Radiant Games.

Solid Clouds þróar og hannar tölvuleikinn Prosper. Leikurinn var þróaður að miklu leyti innan tölvunarfræðideildar HR af nemendum deildarinnar. Á meðal þeirra er Stefán Gunnarsson, en hann segir þennan árangur nemendanna til kominn meðal annars vegna stuðnings kennara tölvunarfræðideildar; þeir styðji nemendur í sköpun og þróun nýrra hugmynda í upplýsingatækni.

Solid CloudsSolid Clouds - hópurinn sem hafnaði í þriðja sæti.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Gulleggið en veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin auk sérstakra aukaverðlauna frá samstarfsaðilum keppninnar.

Klak Innovit stendur árlega fyrir frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja.