Fréttir eftir árum


Fréttir

Unglingar læra fjármálalæsi með Óskalistanum

17.3.2014

Hópur nemenda sem stundar meistaranám í verkefnastjórnun (MPM) við HR hefur þróað leik sem á að auka fjármálalæsi nemenda í efstu bekkjum grunnskóla.Leikurinn er hannaður þannig að unglingar sjái hvernig ákvarðanir um fjármál hafa áhrif á markmið þeirra.

Leikurinn, sem heitir Óskalistinn, gengur út á að fá nemendur til þess að horfa til sumarsins og ímynda sér hvernig þeir muni ákveða að ráðstafa sumarlaununum. Sérstök áhersla er lögð á að fá nemendur til þess að ígrunda þau áhrif sem þessar ákvarðanir hafa á möguleika þeirra til þess að eignast eða upplifa eigin óskir. MPM-hópurinn fór með leikinn í tvo grunnskóla í Kópavogi í síðustu viku: Salaskóla og Lindaskóla. Þar prófuðu nemendur leikinn og tókust tilraunirnar mjög vel. Leikur um fjármálalæsiVæntingar hópsins eru að handritið, sem er afurð verkefnisins, lifi áfram og muni þannig nýtast grunnskólum sem kennsluefni í framtíðinni um fjármál.

Rannsóknir hafa sýnt að þekking, viðhorf og hegðun Íslendinga í fjármálum fer heldur hrakandi milli ára. Samkvæmt Stofnun um Fjármálalæsi er ein af forsendum fjárhagslegs stöðugleika tengd getunni til þess að fresta umbun. Frestuð umbun snýst um að vinna sér inn fyrir einhverju áður en maður umbunar sig.  

Verkefnið er liður í Alþjóðlegri fjármálalæsisviku (e. Global Money Week) sem haldin var í fyrsta sinn hér á landi dagana 10. - 16. mars sl.

Svava og Kristinn

Svava Björk Ólafsdóttir og Kristinn Þorvaldsson sögðu frá leiknum í Morgunútvarpi Rásar 2 þann 17. mars. Hlusta á viðtalið.