Fréttir eftir árum


Fréttir

Forseti afhenti verðlaun HR

31.3.2014

Verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum, þjónustu og kennslu voru afhent á föstudag. Verðlaun HR eru veitt á hverju ári og er markmið með þeim að hvetja kennara og starfsfólk háskólans til nýsköpunar, þróunarstarfs, rannsókna og framúrskarandi þjónustu. Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti verðlaunin.

Verðlaun HR afhentHandhafar verðlaunanna árið 2014: Leifur Þór, Hrannar, Daníel Brandur ásamt forseta og rektor HR.

Flugvélaverkfræðingur fær rannsóknarverðlaunin

Rannsóknarverðlaun HR í ár hlaut dr. Leifur Þór Leifsson, flugvélaverkfræðingur og dósent við tækni- og verkfræðideild. Leifur er meðlimur í rannsóknarsetrinu Engineering Optimization & Modeling Center í HR. Leifur er einnig forstöðumaður Rannsóknarstofu fyrir ómönnuð farartæki sem er hluti af CADIA rannsóknarsetrinu sem starfrækt er innan HR. Rannsóknarsvið hans eru þróun hraðvirkra hönnunaraðferða og gerð ómannaðra farartækja. Við val á rannsóknarverðlaunum HR er litið til birtinga rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, öflun styrkja, framlags til rannsóknarstarfs háskólans, áhrifa á nemendur og unga rannsakendur og þátttöku í uppbyggingu rannsóknarsetra. Við afhendingu verðlaunanna sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, að Leifur hefði náð ótrúlegum árangri á ekki mjög mörgum árum: „Hann hefur birt tugi greina á síðstu árum, gefið út tvær bækur, lagt til 10 bókakafla og verið höfundur um 60 greina á ráðstefnum.  Hann hefur sótt 19 styrki á undanförnum árum og komið að stofnun þriggja nýrra fyrirtækja.“

Kennsluverðlaun HR árið 2014 hlýtur Daníel Brandur Sigurgeirsson, aðjúnkt  við tölvunafræðideild. Ari Kristinn Jónsson sagði við athöfnina í dag að Daníel hafi tekist á við mjög fjölbreytta flóru námskeiða á undanförnum árum.  „Hann hefur þróað og skapað ný námskeið, farið nýjar leiðir í kennslunni og náð mjög sterkum tengslum við nemendur.  Hann hefur fengið afbragðsgott kennslumat í gegnum árin og leitt nýtingu upplýsingatækni.“ Kennsluverðlaunin eru veitt í samstarfi við Stúdentafélag HR.

Handhafi þjónustuverðlauna HR árið 2014 er Hrannar  Traustason, umsjónarmaður rafeindaverkstæðis. Þegar kemur að þjónustuverðlaunum er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR, þekkingar og færni á fagsviði.

HR suðupottur þekkingarsköpunar

Við athöfnina ávarpaði forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson,  starfsfólk og nemendur háskólans. Hann hélt jafnframt öryfirlestur á Fyrirlestramaraþoni HR sem haldið var á föstudag. Talaði forseti meðal annars um hlutverk og starfsemi háskóla í nútímaþjóðfélagi. Þau skil sem áður voru milli háskólasamfélagsins og annarra hliða samfélagsins séu að hverfa, háskólar séu í hringiðu breytinga og hafi mikil áhrif á framtíð þjóðfélagsins. „Það er því gleðilegt að vera staddur hér, í þeirri miðstöð nýsköpunar og rannsókna sem Háskólinn í Reykjavík er. Það er gaman að sjá mörk milli tækni, vísinda, hönnunar og lista vera að strokast út. Okkur eru allar götur greiðar ef við nýtum þann kraft sem er að finna hér í háskólanum, í þessum suðupotti þekkingarsköpunar.“