Ný stjórn SFHR
Ný stjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR) var kosin á föstudaginn sl., þann 21. mars. Stjórnina skipa þau Andri Sigurðsson, formaður, Guðrún Alma Einarsdóttir, varaformaður, Andri Örn Gunnarsson, gjaldkeri og Huginn Ragnarsson, upplýsingafulltrúi.
Nýja stjórnin: Huginn Ragnarsson, upplýsingafulltrúi, Andri Örn Gunnarsson, gjaldkeri, Andri Sigurðsson, formaður og Guðrún Alma Einarsdóttir, varaformaður.
Stúdentafélagið er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík og eru allir nemendur við skólann meðlimir í félaginu. Stjórn stúdentafélagsins er skipuð þremur til fimm aðilum sem allir sitja til eins árs en félagið vinnur markvisst að bættri aðstöðu til náms og félagsstarfs, auk þess að vera nemendafélögum innan handar við skipulagningu sameiginlegra viðburða innan skólans.
Málfundafélag hefur verið starfrækt síðastliðið ár á vegum SFHR við góðar undirtektir nemenda, þar er boðið upp á hina ýmsu málfundi þar sem fólk úr atvinnulífinu heldur fyrirlestra og ræðir við gesti.
Stúdentafélagið tók þátt í stofnun LÍS (Landssamtaka íslenskra stúdenta) fyrr í vetur og mun hagsmunafulltrúi SFHR, sem verður kjörinn síðar í vikunni, sitja í framkvæmdastjórn samtakanna ásamt fráfarandi formanni stúdentafélagsins. Með aðild að LÍS sýna háskólar landsins samstöðu í hinum ýmsu baráttumálum sem varða stúdenta landsins.