Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemi í vélaverkfræði hlýtur styrk úr frumkvöðlasjóði

7.4.2014

Bogi Kárason er meistaranemi í vélaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann vinnur nú að lokaverkefni sínu í samstarfi við Friðfinn K. Daníelsson, verkfræðing  og eiganda Alvars ehf. Verkefnið gengur út á að hanna búnað til borana í hörðu bergi. Þeir Bogi og Friðfinnur fengu nýlega einnar milljón króna styrk úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka til að nýta við vinnslu verkefnisins.

Nemi í vélaverkfræði og frumkvöðull þróa nýja tækni til jarðboranaSigurður Ingi Erlingsson, dósent við tækni- og verkfræðideild HR, Bogi Kárason og Friðfinnur K. Daníelsson við afhendingu styrks úr frumkvöðlasjóði Íslandsbanka.

Bogi segir það ánægjulegt að hafa fengið þessa hvatningu. „Þetta hvetur okkur áfram. Við erum búnir að ljúka hönnun á frumgerð sem verið er að smíða núna. Svo prófum við búnaðinn í lok mánaðarins.“

Boranir í jörðu niður svo sem eftir heitu og köldu vatni eða  olíu og gasi eiga sér langa sögu. Í Noregi, svo dæmi sé tekið, er verið að veita gríðarlegum fjármunum í að þróa bortækni sem tekur hefðbundnum hjólakrónum fram.   

Friðfinnur er höfundur verkefnisins og eigandi en hann hefur verið viðloðandi jarðboranageirann í meira en 30 ár og staðið fyrir umtalsverðu frumkvöðlastarfi á sviði hönnunar og smíði tengdum borunum og fleiru. Hann segir þetta verkefni frábært dæmi um tengsl milli atvinnulífs og háskóla:

„Ég var hálf smeykur við að fara þessa leið og datt til hugar að nú mundi allt leka út úr höndunum á mér og aðrir mundu hirða hugmyndina. Ég tel mig að betur athuguðu máli ekki þurfa að óttast það.“

Ávinningurinn, ef vel tekst til, yrði öllum jarðboranaiðnaðinum til framdráttar sökum tíma- og orkusparnaðar sem nýja lausnin leiðir af sér. Minni jarðborar myndu geta teygt sig niður á meira dýpi en áður og þar með í hærri hita og meiri orku en tæknin gagnast ekki síður við háhita- og olíuboranir með stærri tækjum.