Fréttir eftir árum


Fréttir

Kepptu til úrslita með samningum um Prins Póló

14.4.2014

Ein virtasta keppnin í samningatækni á heimsvísu, The Negotiation Challenge (TNC), var haldin í Reykjavík dagana 11.-12. apríl. Það er HR sem hélt keppnina en lið háskólans sigraði í keppninni á síðasta ári. Í ár var það viðskiptaháskólinn í Varsjá sem bar sigur úr býtum.

Tilgangur keppninnar er að veita nemendum í viðskiptum og lögum á háskólastigi þjálfun í flóknum samningaviðræðum sem munu bíða þeirra eftir útskrift. Nemendurnir koma úr háskólum sem eru í fararbroddi á þessum sviðum í heiminum og lögð er áhersla á að hafa aðstæður og dæmi sem raunhæfust.

Keppni í samningatækniÚrslitaviðureignin fór fram í Hörpu.

Óháðir aðilar semja úrlausnarefni fyrir hverja keppni og reyna að tengja málefnin því landi sem keppt er í hverju sinni. Í úrslitaviðræðunum, sem fram fóru í Hörpunni, sömdu liðin um innflutning á Prins Póló. Úrlausnarefnið var byggt á raungögnum. Til dæmis var tekið tillit til þess að súkkulaðið var flokkað sem kex af innflutningsaðila á sínum tíma og því var hægt að flytja það inn. Var það um tíma eina sælgætið sem var flutt inn til landsins. Liðin áttu að finna lausnir sem voru fýsilegar báðum aðilum hvað varðar skiptingu kostnaðar og hagnaðs, markaðsherferð, önnur gjöld og umbúðir á vörunni en framleiðendur höfðu ákveðið að skipta um umbúðir á Prins Póló og féll það misvel í kramið hjá íslensku þjóðinni.

Alls voru liðin sem kepptu 18 talsins og komu hvaðanæva að úr heiminum. Liðin öttu kappi í samningatækni í Háskólanum í Reykjavík, í Fjörukránni, í Bláa Lóninu, í Hellisheiðarvirkjun og svo var lokabaráttan háð í Hörpunni.

Háskólinn í Reykjavík hefur með góðum árangri í The Negotiation Challenge (TNC) skipað sér meðal fremstu háskóla í heimi á sviði samingatækni.  Í fyrsta skiptið sem HR tók þátt hafnaði lið háskólans í öðru sæti, þar næst í þriðja sæti og þarsíðast báru þau sigur úr býtum.