Fréttir eftir árum


Fréttir

Stelpur kynnast upplýsingatækni

30.4.2014

Hátt í hundrað stelpur úr 8. bekk fimm grunnskóla var boðið í Háskólann í Reykjavík og í fjögur fyrirtæki sem sérhæfa sig í upplýsingatækni á fyrsta „Stelpu og tækni“ deginum sem haldinn er hér á landi. Markmiðið með honum er að kynna fyrir stelpunum ýmsa möguleika í þessari atvinnugrein.

Skólarnir sem taka þátt eru Austurbæjarskóli, Laugalækjaskóli, Hlíðaskóli, Hörðuvallaskóli og Garðaskóli. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.

Stelpur og tækni

Vinnusmiðjur og heimsóknir í fyrirtæki

Vinnusmiðjur, sem haldnar voru í HR voru í umsjá Skema, /sys/tra og tölvunarfræðideildar HR og voru viðfangsefnin vefsíðugerð, forritun og gervigreind. Tæknifyrirtækin Advania, GreenQloud, Hugsmiðjan og Marorka voru svo heimsótt en þar beið þeirra dagskrá sem gefur þeim góða innsýn í fyrirtækin og þau tækifæri sem stelpum bjóðast að loknu tækninámi.

Girls in ICT Day

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu þann 24. apríl hvert ár og er styrktur af ITU (International Telecommunication Union) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland tekur þátt.

Upphaf samstarfs HR og ECWT

Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála. Verkefnið er hér á landi jafnframt að hluta til styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem hluti af jafnréttisáætlun stjórnvalda. Dagurinn mun auk þess marka upphaf að samstarfi við ECWT– The European Centre for Women and Technology en HR mun stýra starfsemi samtakanna á Íslandi. Er það von HR að þessi dagur verði árlegur viðburður og muni skila fleiri stelpum í upplýsingatækninám í framtíðinni.

Sjá fleiri myndir frá deginum á facebook-síðu HR