Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslensk eldflaug á loft

15.5.2014

Að sögn hópsins tókst skotið ágætlega. Myndir náðust úr eldflauginni eins og til var ætlast en eins og ávallt er raunin með flókin verkefni af þessum toga geta komið upp tæknileg vandamál. Þannig var staðsetning hennar samkvæmgt GPS-hnitum ekki eins og áætluð var með tilliti til endurheimtar.

Við skotpallinn

Við skotpallinn fyrir utan Vík í Mýrdal í morgun. Ljósmynd: mbl.is

Áhersla á endurheimt

Það verður þó að teljast afrek að skjóta flauginni á loft en eldflaugin Mjölnir varð til sem hluti verkefnis í tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík á vorönn 2014. Námskeiðið er á meistaranámsstigi og í því sameina nemendur með mismunandi bakgrunn krafta sína og nýta reynslu sína og kunnáttu til að leysa þetta flókna, tæknilega vandamál.

Það eru fá verkefni sem krefjast flóknari úrlausnar en eldflaugar sem skotið er á loft með miklum krafti. Jafnframt er í þessu verkefni lögð mikil áhersla á endurheimtarhluta eldflaugaskots. Það þarf því að hanna háþróaða lausn varðandi dreifingu eldflaugarinnar eftir skotið. Í raun er reynt að leiðbeina eldflauginni í átt að ákveðnum lendingarstað þegar hún er á leið niður aftur. Aðferðirnar sem notaðar verða eru svipaðar þeim sem notað er við svifflug.

Tilgangurinn að mynda norðurljósin

Verkefnið er fyrsta skref í langtímaáætlun um að nota háskerpumyndavélar til að taka myndir í nógu mikilli hæð til að ná myndum af norðurljósum. Þetta er samstarf við listamenn frá New York og Puerto Rico. Jafnframt er þetta mikilvægur áfangi í rannsóknum á eldflaugum innan tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík og því að mögulegt verði að mynda norðurljósin ofan frá.

Skot eldflaugarinnar var í beinni útsendingu á vef Símans og fjallaði mbl.is jafnframt um verkefnið:


Hópurinn veltir fyrir sér verkefninu
Tveir nemendur úr hópnum sem vann að Mjölni ásamt leiðbeinandanum Dr. Joseph Foley.