Fréttir eftir árum


Fréttir

Öruggt eftirlitskerfi fyrir foreldra

19.5.2014

Gísli Þór Ólafsson og Ragnar Þór Ásgeirsson eru nemar í rafmagnstæknifræði við tækni- og verkfræðideild HR. Þeir hafa undanfarnar vikur þróað eftirlitskerfi fyrir ungabörn. „Hugmyndin kom til vegna minnar eigin reynslu, mér datt þetta í hug þar sem eignaðist barn fyrir ekki svo löngu,“ segir Ragnar Þór.

Þeir Ragnar og Gísli lýsa búnaðinum sem eftirlitskerfi sem geri notandanum kleift að fylgjast með ungabarni í hvaða snjalltæki sem er. 

Ekki hægt að hakka sig inn

„Búnaðurinn miðlar mynd og hljóði í tölvubúnað með nettengingu, hvort sem það er sími eða fartölva og gögnin er hægt að senda í allan tölvubúnað með nettengingu.“ Þeir segjast ekki hafa rekist á slíkan búnað hingað til, það er, búnað sem getur tengst hvaða snjalltæki sem er. Öryggið sé einnig meira með þeirra útgáfu. Til að „hakka“ sig inn á tækið þarf að vera í lítilli fjarlægð frá tækinu sjálfu með aðgang að þráðlausa netinu sem tækið býr til. Það er ekki hægt að hakka sig inn á tækið í gegnum internetið þar sem tækið er ekki internettengt, þannig séð.“

Gísli og Ragnar

Þeir félagar Gísli og Ragnar að leggja lokahönd á verkið. Fremst má sjá Raspberry Pi  tölvuna sem búnaðurinn byggir á.

Ódýr og aðgengilegur öryggisbúnaður

Búnaðurinn sem þeir Gísli og Ragnar nota er Raspberry Pi tölva sem er nettur, ódýr og einfaldur tækjabúnaður og hægt er að tengja við annan búnað. Tölvan er með þráðlaust netkort og USB hljóðkort sem þeir Gísli og Ragnar bættu við sjálfir. „Þau eftirlitskerfi sem við höfum verið að skoða kosta tugi þúsunda en þessi búnaður kostaði okkur um 10 þúsund krónur sem er ekki mikið.“ Myndavélin er RaspiCam sem sömuleiðis er ódýr en góð myndavél. Hún er með nætursjón og getur tekið upp myndefni í myrkri.

„Svo eru fleiri möguleikar í þróuninni á þessu, til dæmis væri hægt að bæta við skynjurum undir dýnunni hjá barninu og þannig fengið upplýsingar um hreyfingar þess.“

Þeir félagar segjast lítið hafa komið að því að búa til svona búnað áður. „Við kunnum í byrjun hvorugir á þetta og höfum þess vegna lært heilan helling. Þetta er örugglega ástæðan fyrir því að þetta hefur tekið okkur svona langan tíma!“