Fréttir eftir árum


Fréttir

Ný stefna og aðgerðaáætlun um nýsköpun samþykkt

23.5.2014

Á fundi Vísinda- og tækniráðs nýlega var samþykkt aðgerðaáætlun sem ætlað er að styðja við og efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og gagnsæja nýtingu opinbers fjár. Í kjölfarið verður auknu fjármagni varið í þennan málaflokk.

Í frétt á vef forsætisráðuneytis segir:

„Það er von mín að stefnan og aðgerðaáætlunin, sem nú hefur verið samþykkt, muni efla til muna nýsköpun og þróun hér á landi og hafi jákvæð og varanleg áhrif á hagvöxt og lífskjör til framtíðar litið. Það er í samræmi við áherslur stjórnvalda um nýsköpun í öllum atvinnugreinum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Vísinda og tækniráðs. 

Aðgerðaáætlunin sem nú hefur verið samþykkt felur í sér 21 aðgerð sem á að stuðla að þessu. Ábyrgð á aðgerðunum er sett í hendur ráðuneyta eða stofnana og kostnaður við hverja aðgerð er metinn. Áætlunin felur m.a. í sér stóraukið framlag í samkeppnissjóði og ráðstafanir til að auðvelda atvinnulífinu að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun. Þá er einnig stefnt að því að gera afrakstur fjárfestinga á þessu sviði betur ljósan með sérstöku upplýsingakerfi, efla nýliðun og gera gangverk opinbera kerfisins liprara og skilvirkara.

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja

Það er nýmæli í starfi Vísinda- og tækniráðs að unnin sé sérstök aðgerðaáætlun með tilgreindum ábyrgðaraðilum, hún kostnaðargreind og tímasett. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt að beita sér fyrir fjármögnun áætlunarinnar með fyrirvara um fjárlagaferlið og afgreiðslu Alþingis.

Ætlunin er að auka opinbera fjárfestingu í samkeppnissjóðum um 2,8 milljarða, þ.e. um 800 m.kr. fjárlagaárið 2015 og um allt að tvo milljarða kr. fjárlagaárið 2016. Um leið er þess vænst að aðgerðin auki fjárfestingar fyrirtækja um 5 milljarða kr.  Það verður gert með því að skapa fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau sjái hag í að auka hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi. Sérstaklega er hér horft til skatthvata. 

Reynsla annarra landa sýnir að aukin fjárfesting hins opinbera og atvinnulífs til vísinda og nýsköpunar eflir alþjóðlega samkeppnishæfni og skilar sér margfalt til baka í auknum skatt- og útflutningstekjum, í nýjum atvinnutækifærum, sparnaði, nýsköpun og hagkvæmni í opinberum rekstri, sem og fjölbreyttara samfélagi og atvinnulífi um land allt.  

Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016 (á vef forsætisráðuneytis)