Nýsköpunartorg haldið í HR
Markmið Nýsköpunartorgsins var að skapa skýra mynd af árangri og uppbyggingu tækni- og hugverkaiðnaðarins og aðkomu stoðkerfisins, eins og Tækniþróunarsjóðs, að þessari uppbyggingu auk þess að byggja upp sterka og jákvæða ímynd þessara fyrirtækja með því að sýna og segja frá nýsköpun í ólíkum fyrirtækjum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði Nýsköpunartorgið
Föstudaginn 23. maí var fagráðstefna um nýsköpun en á laugardeginum var boðið upp á skemmtidagskrá. Auk kynninga fyrirtækja var hægt að spila með Spilavinum, mæla ástand húðarinnar, prófa heimsins léttasta hjólagaffal og sjá falsaðar vörur. Pollapönkarar tóku svo lagið við mikinn fögnuð viðstaddra.
Nýsköpunartorgið var haldið í tengslum við 20 ára afmæli Samtaka iðnaðarins og 10 ára afmæli Tækniþróunarsjóðs. Það voru Samtök iðnaðarins, Rannís, HR, Einkaleyfastofa og Ský og fleiri aðilar sem tengjast nýsköpunarumhverfinu á Íslandi sem stóðu að viðburðinum.