Fréttir eftir árum


Fréttir

Hver verða mannauðsvandamál framtíðarinnar?

2.6.2014

Í viðtalinu segir meðal annars:

Gaman er að velta upp þeirri spurningu hvernig áskoranir stjórnenda munu breytast á komandi árum og áratugum. Margir spá því að vinnustaðurinn muni gjörbreytast og þeir djörfustu reikna með að áður en langt um líði muni verða algengara að starfsmenn vinni heima og iðulega fyrir tvo eða fleiri vinnuveitendur í senn. Í stað þess að mæta á einn stað með ákveðinn hóp vinnufélaga sér við hlið, þá verður starfsmaðurinn með angana úti mjög víða og kannski bara í sambandi við vinnustaðinn í gegnum tölvupóst, netspjall og Skype.

Vinnudagur í fjarvinnu getur orðið lengriArney Einarsdóttir

Arney er ekki svo viss um að þróunin nái endilega svo langt, a.m.k. ekki fyrir alla. Fjarvinna og sveigjanleiki henti sumum, en öðrum ekki, og einnig hentar hún ekki fyrir öll störf. Fjarvinnu og sveigjanleika fylgja líka bæði kostir og ókostir. „Þannig sýna rannsóknir að fólk sem vinnur fjarvinnu vinnur gjarnan lengri vinnudag en hinir sem koma á staðinn og eru einfaldlega við sína vinnustöð frá 9 til 5. Einnig getur sveigjanleiki dregið úr skilunum á milli einkalífs og vinnu og þannig dregið úr einbeitingu, jafnt í leik sem og starfi.“

Hún segir að það verði líklega einkum sérfræðingarnir sem muni í auknum mæli vinna fjarvinnu. Því meiri sérfræðiþekkingu sem tiltekin störf kalla á, því minni vill þörfin vera fyrir náið og persónulegt samstarf við aðra kollega á daglegum grunni.

„En áskoranirnar eru vissulega til staðar á vinnustöðum þar sem er mikill sveigjanleiki og fjarvinna. Til dæmis getur verið erfiðara að skapa einingu á slíkum vinnustað.“

Fjarvinna dregur úr tryggð við fyrirtækið

Segir Arney að þetta framtíðarvinnuumhverfi sérfræðingasamfélagsins, sem einkennist af fjarvinnu, sveigjanleika og laustengdara vinnusambandi, geti dregið verulega úr tryggð starfsfólks við einstök fyrirtæki eða vinnustaði. Starfsmenn sem eru í laustengdara félagslegu sambandi við vinnustaðinn eru til dæmis liklegir til að þroska með sér sterkari tryggð við fagið sitt en við vinnustaðinn. Það geti verið bæði gott og slæmt frá sjónarhorni stjórnandans.

„Það er mjög jákvætt ef tekst að skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólk upplifir faglegt og skipulagslegt sjáflstæði í starfi. Hins vegar er þó erfiðara að halda utan um og fylgjast með árangri slíkra starfsmanna. Einnig getur slíkur skortur á fyrirtækjatryggð orsakað mikla starfsmannaveltu en hún getur orðið fyrirtækjum ansi kostnaðarsöm og jafnvel skapað tímabundið rof í rekstri.“

Viðtalið var skrifað af Ásgeiri Ingvarssyni og birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 22. maí 2014.

Lesa um Rannsóknarmiðstöð í mannauðsstjórnun