Fréttir eftir árum


Fréttir

Brautskráning frumgreinanemenda

10.6.2014

Háskólinn í Reykjavík brautskráði laugardaginn 7. júní 39 nemendur með frumgreinapróf. Brautskráningin fór fram í Sólinni í húsakynnum Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík.

Við athöfnina voru flutt ávörp. Af hálfu eldri nemenda talaði Valur Sveinbjörnsson rekstrarverkfræðingur hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi. 25 ár eru síðan Valur og þeir sem brautskráðust með honum luku raungreinadeildarprófi frá frumgreinadeild Tækniskóla Íslands, fyrirrennara frumgreinanáms HR, og af því tilefni voru nokkrir úr þeim árgangi viðstaddir athöfnina. Af hálfu útskriftarnema talaði Baldur Már Pétursson. Tónlistaratriðið var að þessu sinni í höndum Brynhildar Þóru Þórsdóttur og Arnar Magnússonar.

Útskrift frumgeinanemaViðurkenningar veittar fyrir góðan árangur

Við brautskráninguna hlaut Snorri Halldórsson viðurkenningu Samtaka iðnaðarins fyrir bestan árangur í frumgreinanámi. Hann  hlaut jafnframt viðurkenningu fyrir ágætan árangur í ensku og íslensku. Jafnframt hlaut Snorri viðurkenningar danska og þýska sendiráðsins fyrir ágætan árangur í dönsku og þýsku.

Njáll Hilmar Hilmarsson hlaut viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir ágætan árangur í stærðfræði og jafnframt hlaut Njáll viðurkenningu fyrir ágætan árangur í raungreinum í frumgreinanámi Háskólans í Reykjavík.

Jóhann Smári Gunnarsson hlaut viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir ágætan árangur í stærðfræði.

Fanney Ásta Ágústsdóttir hlaut viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir ágætan árangur í þýsku.

Ragnar Mikael Halldórsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan árangur í ensku.

Eftir að nemendur höfðu fengið skírteini sín talaði rektor Háskólans í Reykjavík dr. Ari Kristinn Jónsson.