Brautskráning frá Háskólanum í Reykjavík
Í dag, 14. júní, voru 507 nemendur brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík.
327 nemandi lauk grunnnámi, 179 meistaranámi og einn doktorsnámi. Á liðnu skólaári stunduðu um 3200 nemendur nám við HR og hafa 709 nemendur verið brautskráðir það sem af er þessu ári.
Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild HR, eða 178 nemendur. Viðskiptadeild háskólans útskrifaði 155 nemendur og lagadeild 92 nemendur. Tölvunarfræðideild útskrifaði 82 nemendur, þar á meðal einn doktorsnema. Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, afhenti eftirtöldum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi; Árna Þórólfi Árnasyni, BA í lögfræði, Brynhildi L. Brynjarsdóttur, BSc í sálfræði, Helga Ingimundarson, BSc í fjármálaverkfræði, og Jóhanni Brynjari Magnússyni, BSc í tölvunarfræði.
Ómar Berg Rúnarsson, ML í lögfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda
Þorsteinn Baldur Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla Games og BSc í viðskiptafræði frá HR árið 2004, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar. Ómar Berg Rúnarsson, ML í lögfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.
Meðal þess sem dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fjallaði um í ávarpi sínu til útskriftarnemenda var fjármögnun háskóla á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin:
„Eftir þann niðurskurð sem orðið hefur á síðustu árum er staðan sú að hverjum nemanda í háskóla á Íslandi fylgir aðeins helmingur þess fjármagns sem fylgir nemanda á öðrum Norðurlöndum. Þetta er nokkuð sem verður að laga, svo Ísland verði samkeppnishæft í menntun og nýsköpun til framtíðar. Menntamál eru efnahagsmál, ekki velferðarmál, því fjárfesting í menntun skilar auknum hagvexti og bættri samkeppnishæfni.
Stjórnvöld virðast þó vera að átta sig á þessum staðreyndum því nýlega var samþykkt aðgerðaáætlun vísinda- og tækniráðs um að verulega verði bætti í rannsóknarsjóði á næstu árum og að í skrefum verði unnið að því að fjármögnun háskóla verði sambærileg við hin Norðurlöndin. Enn er langt í land með að fjármögnun háskóla hér á landi sé viðunandi, en þetta er mikilvægt skref í rétta átt.”
Í dag er Háskólinn í Reykjavík stærsti tækniháskóli landsins og útskrifar um tvo þriðju þeirra sem ljúka háskólanámi í tæknigreinum, helming þeirra sem ljúka námi í viðskiptafræði og þriðjung allra lögfræðinga.