Komust í úrslit með Ægi
Nemendur við Háskólann í Reykjavík komust í úrslit alþjóðlegu kafbátakeppninnar RoboSub í San Diego í Bandaríkjunum nýlega. Liðið keppti með kafbátinn Ægi í úrslitum á sunnudag og náði 6. sæti.
Í keppninni, sem haldin er árlega, leysa kafbátar liðanna þrautir sem felast til dæmis í að komast í gegnum hlið, sleppa hlutum í fötur á botni laugar, elta uppi hljóðgjafa, finna rétta bauju og skjóta pílu í rétt skotmark. Kafbátarnir þurfa að vera algjörlega sjálfráða sem þýðir að ekki má hafa nein samskipti við bátana á meðan þeir leysa þrautirnar.
Nemendurnir sem kepptu í San Diego ásamt Stefáni Frey Stefánssyni
Alls tóku 39 lið þátt í keppninni í ár og komu þau víðsvegar að úr heiminum. Sigurvegari þetta árið var Cornell University en sá skóli sigraði einnig í keppninni í fyrra.
Með nýju stjórnkerfi
Þetta er í fjórða skipti sem HR tekur þátt í Robosub. Nemendur í keppnisliðinu koma úr tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild.
Kafbáturinn Ægir notar tvær myndavélar, þrjá hljóðnema, hröðunarnema, gýró, þrýstinema og seguláttavita til þess að skynja umhverfi sitt og sex mótora til þess að stýra sér. Í ár var ytra byrði kafbátsins endursmíðað og var tillit tekið til betri stýringar og aðgengi að rafmagnsbúnaði og rafhlöðum. Stjórnkerfi kafbátsins var einnig endurforritað og myndgreiningarhugbúnaður þróaður áfram. Einnig var hannað nýtt hljóðkerfi.
Stefán Freyr Stefánsson, aðstoðarkennari við tækni- og verkfræðideild, segir liðið hafa náð markmiðum sínum. „Við náðum markmiðunum og það er flottur árangur að vera í 6. sæti af 39 liðum.“