Fréttir eftir árum


Fréttir

Heilalínurit og nýjungar í rannsóknum á flogaveiki

28.8.2014

Fyrirlestur dr. Mark Holmes í HR

Mánudaginn 1. september kl. 14:45 í stofu M101

Háskólinn í Reykjavík fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun Tækniháskóla Íslands sem sameinaður Heilivar HR árið 2005. Hluti af hátíðarhöldunum er opin fyrirlestraröð í HR þar sem fræðimenn fjalla um rannsóknir á kjarnasviðum háskólans: tækni, viðskiptum og lögum.

Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn mánudaginn 1. september kl. 14:45 og fjallar hann um heilbrigðisverkfræði. Það er dr. Mark Holmes,  einn fremsti vísindamaðurinn í taugasjúkdómafræði í heiminum í dag, sem ríður á vaðið. Holmes hefur síðastliðin 20 ár rannsakað taugavísindi (e. neuroscience) og þróun tækni sem getur örvað heilastarfsemi.

Markverðar uppgötvanir hafa verið gerðar með því að nota heilalínurit í rannsóknum á einstaklingum með flogaveiki.  Í fyrirlestri sínum fer Mark Holmes yfir nokkrar þeirra en heilalínurit (EEG) er aðferð til að taka upp rafboð í heila í gegnum höfuðkúpuna.

Holmes hefur verið meðlimur í virtum samtökum í Bandaríkjunum á þessu sviði eins og American Academy of Neurology, American Epilepsy Society, American Clinical Neurophysiology Society, Society of Neuroscience og American Neurological Association. Hann hefur til þessa dags birt meira en 100 ritrýndar vísindagreinar.  Frá árinu 2007 hefur Holmes verið prófessor í taugasjúkdómafræði og aðstoðarframkvæmdastjóri flogaveikistofnunarinnar, eða Regional Epilepsy Center, við Háskólann í Washington í Seattle, Bandaríkjunum.

Háskólinn í Reykjavík hefur markað sér skýra stefnu um eflingu heilbrigðisvísinda á Íslandi og rannsóknir í taugavísindum. Innan háskólans eru rannsóknarsetrin RU Neurolab og heilbrigðis- og taugaverkfræðistofnun en þar fara fram rannsóknir kennara og nemenda á þessu sviði. HR og Landspítali-háskólasjúkrahús stofnuðu Heilbrigðistæknisetur í nóvember á síðasta ári.