Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslendingar slakir í að innleiða Evrópulöggjöfina tímanlega

4.9.2014

Í viðtali við Fréttablaðið í dag, 4. september, kemur fram að eftirlitsstofnun Evrópusambandsins, ESA, hefur sent iðnaðarráðuneytinu fyrirspurn um það hvers vegna raforkulöggjöf hefur ekki verið innleidd hér á landi en það eru sjö ár síðan stjórnvöld áttu að innleiða löggjöfina.

Komist eftirlitsstofnunin að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hafi ekki uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart EES getur hún stefnt íslenskum stjórnvöldum fyrir Evrópudómstólinn.

Innleiðingahalli á Íslandi

Gunnar Þór Pétursson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðingur í Evrópurétti, segir það ekki óvanalegt að ESA fái inn á borð til sín kvartanir sem þessar „Við vitum af svonefndum innleiðingarhalla hér á landi þar sem við Íslendingar erum einna slakastir EES-ríkjanna í að innleiða Evrópulöggjöfina tímanlega. Hvað raforkulöggjöfina snertir þá hefur Ísland innleitt hluta af raforkulöggjöfinni. Ef svo reynist að íslensk stjórnvöld hafi ekki innleitt alla löggjöfina þá gæti það verið brot á EES-sáttmálanum,“ segir Gunnar Þór.

Gunnar Þór Pétursson

Fréttin er byggð á umfjöllun Fréttablaðsins, 4. september 2014.