Fréttir eftir árum


Fréttir

Taugabrautir afhjúpaðar með þrívíddarprentun

5.9.2014

Eykur öryggi sjúklingsins

„Þetta er hik­laust eitt­hvað sem not­ast verður við í framtíðinni,“ seg­ir Íris í samtali við mbl.is. „Með þessu var ég að halda áfram með verk­efni sem var búið að vinna inn­an tækni- og verk­fræðideild­ar þar sem höfuðkúp­ur voru prentaðar út í þrívídd, ásamt æxli, til að aðstoða lækna við und­ir­bún­ing aðgerða,“ seg­ir Íris. Verk­efnið vinn­ur hún á Heil­brigðis­tækni­setr­inu, sem HR og Land­spít­ali-há­skóla­sjúkra­hús stofnuðu í nóv­em­ber á síðasta ári. Hug­mynd­in að rannsókninni kviknaði í sam­starfi við dr. Pau­lo Gargiu­lo, lektor við tækni- og verkfræðideild og Ingvar Hákons­son, heilatauga­sk­urðlækni á Land­spít­al­an­um.

Taugabrautir prentaðar í þrívídd

„Ég er að kort­leggja tauga­braut­ir í heila á sjúk­ling­um sem eru með æxli. Með því að hafa þessa kort­lagn­ingu prentaða út í þrívídd geta heilatauga­sk­urðlækn­ar fengið þrívídd­armód­el af sjúk­ling­um sín­um út­prentað nokkr­um dög­um fyr­ir aðgerð og æft sig að gera aðgerðina fyr­ir­fram,“ seg­ir Íris. Hún seg­ir þetta stytta aðgerðar­tíma, sem minnki kostnað við aðgerðir, auk þess sem þetta geri aðgerðir þægi­legri fyr­ir bæði sjúk­linga og lækna. Allt auki þetta ör­yggi sjúk­lingsins.

 „Þessi vinnsla er mjög nákvæm og gefur góða raun. Ísland er eina landið, svo við vitum til, þar sem svona módel, eða það sem er kallað rapid prototyping, er notað í klínískri starfsemi.“ Hún segir næsta skref vera að þróa þetta áfram og til þess þarf að prófa aðferðina á fleiri sjúklingum. Íris Dröfn heldur rannsóknum sínum áfram sem meistaranemi í heilbrigðisverkfræði næstu tvö árin.

Fróðlegur fyrirlestur

Dr. Mark Holmes.

Íris seg­ir gam­an að sjá hvað aðrir heil­brigðis­verk­fræðing­ar eru að gera, en dr. Mark Hol­mes, einn fremsti vís­indamaður­inn í tauga­sjúk­dóma­fræði í heim­in­um í dag, hélt fyr­ir­lest­ur í HR þann 1. september sl. Hol­mes hef­ur síðastliðin 20 ár rann­sakað tauga­vís­indi og þróun tækni sem get­ur örvað heil­a­starf­semi „Þetta var fróðleg­ur fyr­ir­lest­ur. Það er skemmti­legt að sjá hvað aðrir eru að gera,“ seg­ir Íris. „Þetta gef­ur manni hug­mynd­ir um hvað maður get­ur gert og hvernig maður get­ur aðstoðað inn­an þessa geira.“

HR fagn­ar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofn­un Tækni­há­skóla Íslands sem sam­einaður var HR árið 2005. Hluti af hátíðar­höld­un­um er opin fyr­ir­lestr­aröð í HR þar sem fræðimenn fjalla um rann­sókn­ir á kjarna­sviðum há­skól­ans: tækni, viðskipt­um og lög­um.  

Lesa viðtalið við Írisi Dröfn á mbl.is