Taugabrautir afhjúpaðar með þrívíddarprentun
Eykur öryggi sjúklingsins
„Þetta er hiklaust eitthvað sem notast verður við í framtíðinni,“ segir Íris í samtali við mbl.is. „Með þessu var ég að halda áfram með verkefni sem var búið að vinna innan tækni- og verkfræðideildar þar sem höfuðkúpur voru prentaðar út í þrívídd, ásamt æxli, til að aðstoða lækna við undirbúning aðgerða,“ segir Íris. Verkefnið vinnur hún á Heilbrigðistæknisetrinu, sem HR og Landspítali-háskólasjúkrahús stofnuðu í nóvember á síðasta ári. Hugmyndin að rannsókninni kviknaði í samstarfi við dr. Paulo Gargiulo, lektor við tækni- og verkfræðideild og Ingvar Hákonsson, heilataugaskurðlækni á Landspítalanum.
„Ég er að kortleggja taugabrautir í heila á sjúklingum sem eru með æxli. Með því að hafa þessa kortlagningu prentaða út í þrívídd geta heilataugaskurðlæknar fengið þrívíddarmódel af sjúklingum sínum útprentað nokkrum dögum fyrir aðgerð og æft sig að gera aðgerðina fyrirfram,“ segir Íris. Hún segir þetta stytta aðgerðartíma, sem minnki kostnað við aðgerðir, auk þess sem þetta geri aðgerðir þægilegri fyrir bæði sjúklinga og lækna. Allt auki þetta öryggi sjúklingsins.
„Þessi vinnsla er mjög nákvæm og gefur góða raun. Ísland er eina landið, svo við vitum til, þar sem svona módel, eða það sem er kallað rapid prototyping, er notað í klínískri starfsemi.“ Hún segir næsta skref vera að þróa þetta áfram og til þess þarf að prófa aðferðina á fleiri sjúklingum. Íris Dröfn heldur rannsóknum sínum áfram sem meistaranemi í heilbrigðisverkfræði næstu tvö árin.
Fróðlegur fyrirlestur
Íris segir gaman að sjá hvað aðrir heilbrigðisverkfræðingar eru að gera, en dr. Mark Holmes, einn fremsti vísindamaðurinn í taugasjúkdómafræði í heiminum í dag, hélt fyrirlestur í HR þann 1. september sl. Holmes hefur síðastliðin 20 ár rannsakað taugavísindi og þróun tækni sem getur örvað heilastarfsemi „Þetta var fróðlegur fyrirlestur. Það er skemmtilegt að sjá hvað aðrir eru að gera,“ segir Íris. „Þetta gefur manni hugmyndir um hvað maður getur gert og hvernig maður getur aðstoðað innan þessa geira.“
HR fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun Tækniháskóla Íslands sem sameinaður var HR árið 2005. Hluti af hátíðarhöldunum er opin fyrirlestraröð í HR þar sem fræðimenn fjalla um rannsóknir á kjarnasviðum háskólans: tækni, viðskiptum og lögum.