Fréttir eftir árum


Fréttir

Íslensk þekking á jarðvarmanýtingu berist til Kína

12.9.2014

Nemendur Tianjin háskóla munu geta stundað nám við námsbrautir Íslenska orkuháskóla HR (Iceland School of Energy, ISE) og útskrifast með meistaragráðu frá báðum skólum. Með samningnum fá nemendur ISE við HR jafnframt tækifæri til að taka þátt í námi og rannsóknum sem gerðar eru í Kína.

Kínversk stjórnvöld hafa markað sér metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum. Til að ná markmiðum hennar þarf að mennta sérfræðinga á sviði endurnýjanlegrar orku. Samningurinn við Háskólann í Reykjavík er liður í því. Þetta er annar samningurinn á þessu ári sem HR gerir við kínverskan háskóla en í maí var skrifað undir svipaðan samning við China University of Geosciences.

Ísland í forystuhlutverki

„Þróun endurnýjanlegra orkugjafa er eitt mikilvægasta viðfangsefni jarðarbúa. Ísland er í forystuhlutverki alþjóðlega í nýtingu endurnýjanlegrar orku og því höfum við dýrmæta þekkingu til að miðla til annarra þjóða, bæði í gegnum menntun og samstarf í þróun. HR er í samstarfi víða um heim í miðlun þessarar sérþekkingar, en það er sérstaklega ánægjulegt að við skulum vera komin í náið samstarf við Tianjin háskóla. Stjórnvöld í Kína leggja áherslu á þróun endurnýjanlegrar orku og Tianjin háskóli, sem einn fremsti háskóli í tæknigreinum í Kína, mun gegna lykilhlutverki í þeirri þróun,“ sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, við undirskriftina.

Samningur undirritaður við Tianjin University

Liu Jianping, fromaður háskólaráðs Tianjin University og dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Einstakt nám við Iceland School of Energy

Innan ISE er boðið upp á tvær námsbrautir á meistarastigi þar sem endurnýjanlegir orkugjafar og nýting þeirra er í forgrunni. Námið er skipulagt í samvinnu tækni- og verkfræðideildar HR, Orkuveitu Reykjavíkur og Íslenskra orkurannsókna (ISOR) auk þess sem fjöldi fyrirtækja tekur þátt í gegnum kennslu og rannsóknir. Námið þykir einstakt vegna þverfagleika þess; þar eru menntaðir verkfræðingar, viðskiptafræðingar, vísindamenn og aðilar sem koma að stefnumótun.