Fréttir eftir árum


Fréttir

Ný námslína fyrir stjórnendur félagasamtaka og sjálfseignarstofnana

23.6.2017

Opni háskólinn í HR og Almannaheill hafa þróað nýja námslínu fyrir stjórnendur félagasamtaka og sjálfseignastofnana. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á nám hér á landi sem er sérstaklega ætlað þriðja geiranum, það er, samtökum og stofnunum sem starfa í almannaþágu, sem teljast hvorki til opinbera geirans né einkageirans. Almannaheill eru samtök þriðja geirans og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum samtaka og stofnana sem til hans heyra. 

Þriðji geirinn hér á landi er viðamikill, enda teljast til hans meðal annars björgunarsveitir, íþróttafélög, sjúklingafélög, hagsmunasamtök, og ýmis önnur félagasamtök. Starfsemi þeirra felur í sér margar áskoranir sem eru ólíkar þeim sem stjórnendur á almennum vinnumarkaði standa frammi fyrir.

„Í fyrsta lagi starfar fólk í þriðja geiranum fyrst og fremst af hugsjón og er að fást við mörg af mikilvægustu viðfangsefnum samfélagsins en gjarnan með afar takmarkað fjármagn. Í annan stað felst árangur félagasamtaka ekki í fjárhagslegum arði til eigenda heldur félagslegu virði sem getur verið snúið að mæla. Félagssamtök hafa auk þess sjaldan beint boðvald og þurfa því að beita sannfæringarkrafti við sína hagsmunaaðila. Auk þess þarf að beita öðrum aðferðum við að stjórna sjálfboðaliðum en starfsfólki sem er á launaskrá,“ segir Ketill Berg Magnússon, formaður Almannaheilla.

Kennsla byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum tengdum atvinnulífi og alþjóðaumhverfi. Námskeiðið samanstendur af átta námslotum sem fjalla um réttarumhverfi, stefnumótun, stjórnun sjálfboðaliða, markaðssetningu fjármálastjórnun og fleira.  

„Við erum mjög stolt af þessari námslínu sem og af samstarfinu við Almannaheill. Við finnum það í samskiptum við félög innan þriðja geirans að þörfin fyrir faglegt nám fyrir stjórnendur innan þessa geira er til staðar og tækifærin eru mörg og spennandi. Meðbyrinn er til staðar og hlökkum við mikið til þess að hefja leikinn í haust,“ segir Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR.

Námið hentar bæði nýjum stjórnendum og þeim sem reynslumeiri eru, sem vilja kynnast nýjum aðferðum, straumum og stefnum. Námið hefst þann 17. október nk. Nánari upplýsingar og skráning eru á vef Opna háskólans í HR.