Fréttir eftir árum


Fréttir

Ný rannsóknarstofnun í kennslufræði við HR

7.10.2015

Sett hefur verið á stofn kennslufræðistofnun við Háskólann í Reykjavík. Markmið hennar er að rannsaka samspil líffræðilegra þátta sem hafa áhrif á nám og samspil þeirra við hegðun og umhverfi.

Tölfræðin ekki ásættanleg

Ný kennslufræðistofnun HR er fyrsta rannsóknarsetur sinnar tegundar hér á landi og mun leggja áherslu á þverfaglegar rannsóknir á taugavísindum, námsgetu, líðan ungmenna og menntun. 

Skoðaðar verða tengingar milli heila, huga, atferlis, umhverfis og menntunar. Rannsóknir eru þegar hafnar á samspili hreyfingar og náms, áhrifum félagslegra þátta á heilsu og hegðun unglinga og muni á líðan og námsárangri drengja og stúlkna.

Hermundur Sigmundsson

Hermundur Sigmundsson, prófessor við íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík og sálfræðideild Norska tækni- og vísindaháskólans, NTNU, er í forsvari fyrir nýju kennslufræðistofnunina: 

„Ísland er í 28. – 29. sæti af 35 löndum OECD þegar kemur að lestrargetu 14-15 ára unglinga, 21. sæti í stærðfræði og 29. sæti í náttúrufræði. 28% barna eru í sérkennslu hér á landi, miðað við 8% í Noregi. Tölfræðin er engan veginn ásættanleg og við þurfum að komast að því hvar vandinn liggur. Ég vonast til þess að rannsóknir innan kennslufræðistofnunarinnar skili þekkingu sem geti nýst beint við skólastarf hér á landi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að hafa þekkingu á því hvernig börnin okkar læra, hvernig þeim gengur og hvernig þeim líður. Það er t.d. mjög mikilvægt að styðjast við alþjóðlega viðurkenndar, ritrýndar rannsóknir sem útgangspunkt fyrir kennslu, eins og til dæmis í lestrarkennslu byrjenda og skipulagi skóladagsins.“

Námsstefna um raunprófaðar aðferðir

Af þessu tilefni heldur stofnunin, í samstarfi við Opna háskólann í HR, námsstefnu um lestrarkennslu þann 8. október næstkomandi þar sem m.a. verður fjallað um færniþróun, áhugahvöt og raunprófaðar aðferðir. Hún er sérstaklega ætluð grunnskólakennurum á fyrsta námsstigi en opin öllum sem hafa áhuga á málefninu.

Fjallað verður um mikilvægar kenningar um nám, færniþróun og áhugahvöt, raunprófaðar aðferðir við lestrarkennslu og lestrarfærni sem grunn að frekara námi. Þá verður Herdís Egilsdóttir, fyrrum kennari við Ísaksskóla, með sérstakt innlegg um lestrarkennslu eftir hljóðaaðferð.

Sjá dagskrá námsstefnu um læsi hér