Fréttir eftir árum


Fréttir

Munu koma að uppbyggingu stúdentabragga og háskólagarða

6.6.2016

Kosið hefur verið í nýja stjórn Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR). Rebekka Rún Jóhannesdóttir var kjörinn formaður, Skúli Þór Árnason var kosinn varaformaður, Kristinn Guðmundsson gjaldkeri, Erna Sigurðardóttir, hagsmunafulltrúi og Íris Björk Snorradóttir upplýsingafulltrúi.

Meðlimir í nýrri stjórn stilla sér upp hlið við hlið í Sólinni

Frá vinstri: Erna Sigurðardóttir, Kristinn Guðmundsson, Rebekka Rún Jóhannesdóttir, Skúli Þór Árnason og Íris Björk Snorradóttir. 

SFHR er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík og ber að standa vörð um hagsmuni nemenda sem og að auka einingu meðal nemenda skólans. Samkvæmt nýjum formanni eru helstu áhersluatriði nýrrar stjórnar eftirfarandi: 

„Við í nýju stjórn SFHR munum halda áfram baráttu stúdenta hvað varðar kjör námsmanna, svo sem námslán og húsnæðismál. Auk þess munum við vinna náið með HR við uppbyggingu stúdentabragga og háskólagarða. Við munum samræma verklag í hagsmunaráðum allra deilda sem leiðir til þess að gæðakerfi skólans nýtist til að ná betri árangri í öllum deildum. Einnig munum við halda áfram að efla Landssamtök íslenskra stúdenta.“

Félagið veitir skólanum aðhald hvað varðar gæði kennslu og aðstöðu nemenda til náms. „Við teljum okkur heppin hér í HR þar sem skólinn er mjög framarlega hvað varðar nútímavædda kennslu og tengingu við atvinnulífið, en það er alltaf eitthvað sem má bæta.“