Fréttir eftir árum


Fréttir

Þrívíddarlíkön Heilbrigðistækniseturs sýnd á Degi verkfræðinnar

13.4.2015

Undanfarin misseri hafa vísindamenn við tækni- og verkfræðideild og Landspítala - háskólasjúkrahús þróað byltingarkennda tækni sem nýtist við undirbúning skurðaðgerða. Kvöldfréttir RÚV fjölluðu um þrívíddarlíkönin laugardaginn 11. apríl. 

Líkönin sýnd

Paolo Gargiulo, dósent við tækni og verkfræðideild HR, segist í fréttum RÚV hafa kynnt tæknina á Degi verkfræðinnar sem notuð er á Landspítalanum og Heilbrigðistæknisetri Háskólans í Reykjavík til að hjálpa skurðlæknum að gera og skipuleggja aðgerðir.

Aðferðin hefur orðið til þess að stytta þann tíma sem flóknar aðgerðir taka. „Hún nýtist við þær aðgerðir sem eru mjög flóknar og þurfa mikinn undirbúning. Til þess að losa okkur við þann tíma í aðgerðinni sem fer í undirbúning, með þessu getur maður gert það daginn áður. 

Maður er sem sagt með þrívíddarmódel sem er prentað út frá tölvusneiðmynd sjúklingsins, og með því að geta þreifað á módelinu, mælt út og ákveðið sauma, ákveðið stærðir á bótum sem maður ætlar að nota og hvernig maður ætlar að leggja þær í módelið, sem er í stærðinni 1 á móti 1 miðað við hjarta sjúklingsins, þá gerir þetta undirbúninginn miklu markvissari og betri og meiri líkur á að maður komi sjúklingnum klakklaust í gegnum gríðarlega stórar aðgerðir þar sem horfurnar eru jafnvel lélegar,“ segir Paolo. 

Þessi aðferð, að nota þrívíddarprentun af líffærum,  hefur verið þróuð hér á landi og vakið athygli út fyrir landsteinana. 

Paolo Gargiulo

Paolo mun fjalla um þessa byltingarkenndu tækni á Fyrirlestramaraþoni HR þann 21. apríl nk.