Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýr símaleikur til að safna spurningum og svörum fyrir íslenska máltækni

23.6.2021

Spurningar er glænýr símaleikur þar sem þátttakendur setja fram, fara yfir og svara fjölbreyttum spurningum. Tilgangur leiksins er að styðja við þróun máltæknilausna fyrir íslensku, m.a. smíði íslensks snjallmennis sem getur svarað spurningum á íslensku. Þátttakendur eiga þess kost að vinna fjölbreytta vinninga, því veglegri eftir því sem lengra er farið í leiknum. Markmiðið er að safna 100.000 spurningum og svörum í opið gagnasafn sem getur nýst öllum sem vinna að íslenskum máltæknilausnum.

Spurningar er glænýr símaleikur þar sem þátttakendur setja fram, fara yfir og svara fjölbreyttum spurningum.Tilgangur leiksins er að styðja við þróun máltæknilausna fyrir íslensku, m.a. smíði íslensks snjallmennis sem getur svarað spurningum á íslensku.

Verkefnið er á vegum mál- og raddtæknistofu Háskólans í Reykjavík og meðal annars unnið af nemendum í sumarvinnu á vegum stjórnvalda. Teymið hefur sett sér það háleita markmið að búa til gagnasafn á heimsmælikvarða og er fyrirmyndin eitt stærsta slíka gagnasafn heims, Stanford-gagnasafnið sem inniheldur 100.000 spurningar og svör á ensku.

Njáll Skarphéðinsson sem nýlega lauk BSc gráðu í tölvunarfræði frá HR með ágætiseinkunn og er að hefja meistarasnám í gervigreind við Carnegie Mellon, einn fremsta háskóla heims á því sviði, er upphafsmaður gagnasöfnunarinnar. Hann segir að hugmyndin sé að hægt verði að nota gervigreind til að vinna úr þeim gögnum sem safnast til að kenna tölvum og snjallsímum að svara áður óséðum spurningum. Hægt verði að spyrja tæki spurninga upphátt og fá lesin svör til baka. 

„Við erum að stíga mikilvægt skref í átt að því að hægt verði að smíða alvöru snjallmenni sem getur svarað almennum spurningum um allt milli himins og jarðar á íslensku,“ 

segir hann.

Spurningar er glænýr símaleikur þar sem þátttakendur setja fram, fara yfir og svara fjölbreyttum spurningum.

Raddstýring tölva og snjalltækja er orðinn sjálfsagður hluti af daglegu lífi, en enn sem komið er fara slík samskipti oftast fram á ensku og einungis er hægt að eiga mjög takmörkuð samskipti við tölvur og tæki á íslensku. Til að tryggja stöðu íslensku í stafrænum heimi er nauðsynlegt að byggja upp innviði sem stuðla að framþróun og grósku í heimi íslenskrar máltækni. Nú geta allir tekið þátt í þróun máltæknilausna fyrir íslensku með því að spila þennan skemmtilega spurningaleik.

Hægt er að nálgast leikinn og frekari upplýsingar á spurningar.is og á App Store og Google Play.

Við mál- og raddtæknistofu HR er unnið að fjölbreyttum rannsóknum og hagnýtum verkefnum á sviði gervigreindar og máltækni með það að markmiði að auka fræðilega þekkingu á sviði máltækni og þróa tækni sem gerir fólki kleift að hafa munnleg samskipti við tölvur og tæki á íslensku. Mál- og raddtæknistofa vinnur að fjölmörgum verkefnum innan hinnar íslensku máltækniáætlunar og hefur frá árinu 2019, í samvinnu við Almannaróm, meðal annars staðið að vel heppnaðri söfnun raddsýna á samromur.is.