Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýr sjóður stofnaður fyrir rannsóknir í upplýsingatækni og viðskiptafræði

18.5.2015

Nýr sjóður stofnaðurHáskólinn í Reykjavík og LS Retail hafa gert með sér samstarfssamning um rannsóknir og menntun á sviði upplýsingatækni og viðskipta. 

Samstarfið miðar að því að efla menntun sem felur í sér samþættingu upplýsingatækni og viðskiptafræði og að kynna fyrir nemendum HR nýtingu þessara fræðigreina við þróun hugbúnaðar fyrir smásölu, veitingahús og skyldan rekstur. 

Samkvæmt samningnum verður m.a. stofnaður rannsóknasjóður á vegum LS Retail sem mun styrkja rannsóknir og verkefni starfsmanna og nemenda Háskólans í Reykjavík á þessu ört vaxandi sviði.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði við undirskrift samningsins upplýsingatækni gegna stöðugt stærra og viðameira hlutverki í hvers kyns viðskiptum. „Samhliða eykst eftirspurnin eftir sérfræðingum sem hafa skilning á bæði upplýsingatækni og viðskiptum. Þetta samstarf við LS Retail er liður í því hvernig HR er að bregðast við þessari þróun. Við erum því mjög ánægð með að fá svona leiðandi fyrirtæki á alþjóðlegum samkeppnismarkaði til liðs við okkur í þetta spennandi viðfangsefni.“ 

Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail sagði gríðarleg tækifæri falin í því að nota upplýsingatækni til að nýta betur þau gögn sem verða til við nútíma smásölu og veitingarekstur við stefnumörkun fyrirtækja og markaðssetningu vöru og þjónustu. Til þess að nýta þessi tækifæri þarf fólk sem skilur bæði viðskiptahliðina og upplýsingatæknina. Við erum þess vegna mjög ánægð með samstarf við Háskólann í Reykjavík sem er leiðandi í menntun á þessu sviði hér á landi.“