Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýr þrívíddarprentari opnar nýja möguleika á prentun líffæra

24.1.2018

Nýir möguleikar opnast á notkun þrívíddarprentaðra líffæra við undirbúning skurðaðgerða og við fjölbreyttar rannsóknir og prófanir, með tilkomu nýs og fullkomins þrívíddarprentara sem tekinn var í notkun á heilbrigðistæknisetri Háskólans í Reykjavík og Landspítala Háskólasjúkrahúss í dag. Að kaupum á prentaranum standa Háskólinn í Reykjavík, Landspítali háskólasjúkrahús, Össur og Háskóli Íslands.

Á myndinni sést þrívíddarprentari í notkun15 aðgerðir á ári hingað til

Heilbrigðistæknisetur HR og LSH hefur um árabil verið í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að notkun þvívíddarprentaðra líffæra við undirbúning flókinna skurðaðgerða á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Með því að þrívíddarprenta líffæri sjúklinga sem þurfa á aðgerð að halda geta læknar undirbúið sig betur fyrir aðgerðir og stytt þann tíma sem aðgerðir taka. Það eykur öryggi sjúklinga. Að meðaltali hafa verið framkvæmdar 15 aðgerðir með aðstoð þrívíddarprentunar á hverju ári undanfarin ár. Með nýja þrívíddarprentaranum er hægt að sækja enn frekar fram á þessu sviði.

Ótal möguleikar

Nýi þrívíddarprentarinn getur unnið úr teikningum með gríðarlegri nákvæmni, og skekkja í prentun er innan við 0,1 millimeter. Hann getur prentað mjög flókna hluti úr fjölbreyttum efnum, t.d. bæði gegnsæju efni og lituðu, sveigjanlegu eða hörðu. Það verður m.a. hægt að prenta flókin líffæri úr mörgum lögum og nýta mismunandi prentefni og liti til að auka notagildi líffæranna við aðgerðir, rannsóknir og kennslu. Þrívíddarprentarinn verður notaður til fjölbreyttra rannsókna, prófana og við kennslu innan Háskólans í Reykjavík, hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi og við Háskóla Íslands. Auk þess mun Össur nýta prentarinn til að útbúa frumgerðir.

Á myndinni bendir maður á tölvuskjá Paolo Gargiulo, forstöðumaður Heilbrigðistækniseturs HR og LSH, sýnir áhugasömum gestum setursins tölvuteikningar sem prentað er eftir.