Fréttir eftir árum


Fréttir

Framleiðsla basalttrefja til að lækka kolefnisfótsporið

Nýsköpun í HR

30.5.2022

Nýverið var gefin út á vegum Nordic Innovation skýrsla sem fjallar um hvar þau jarðefni er að finna á Norðurlöndum sem hægt er að nota í hátæknivörur, til dæmis fyrir orkuskipti. Háskólinn í Reykjavík er eini háskólinn á Norðurlöndum sem tók þátt í gerð skýrslunnar, en innan veggja iðn- og tæknifræðideildar HR hefur undanfarin ár verið unnið að nýsköpun með íslensk jarðefni. HR tók þátt í gerð skýrslunnar hér á Íslandi með Orkustofnun og Ísor, en hún var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að sjaldgæf jarðefni fyrir tækjabúnað fyrir orkuskipti megi finna á Austurlandi. Einnig er þar að finna kafla um hvernig megi framleiða basalttrefjar á Íslandi til notkunar í hátækniiðnaði. 

The-Nordic-Supply-Potential-of-Critical-Mass-and-Minerals-for-a-Green-Energy-Transition-fontpage

„Notkun basalttrefja sem framleiddar eru með vistvænni orku felur í sér lækkun á kolefnisfótspori núverandi framleiðsluvara sem eru framleiddar úr glertrefjum eða koltrefjum. Trefjaiðnaðurinn hefur stækkað gríðarlega á undanförnum árum og má nefna að trefjar eru notaðar í flugvélar, báta, skip, bíla og í ýmsar framleiðsluvörur, meðal annars tennisspaða og stoðtæki í heilbrigðisiðnaði. Nú síðustu ár hefur
notkun trefja í byggingariðnaði jafnframt aukist mikið til dæmis með framleiðslu stanga til styrktar steypu í stað járnbendingar. Með hækkandi stálverði á undanförnum mánuðum hefur sá kostur að nota basalttrefjastangir í steypu orðið mjög hagkvæmur,” segir Eyþór Rafn Þórhallsson dósent við iðn- og tæknifræðideild.

Við Háskólann í Reykjavík er nú unnið að frekari rannsóknum á íslensku hráefni til trefjaframleiðslu ásamt samstarfsaðilum hér á landi, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Segir Eyþór að ef vel takist til ætti að skapast grundvöllur til framleiðslu basalttrefja og framleiðsluvara úr trefjum hér á landi, þá bæði til notkunar innanlands og til útflutnings. Í þeim tilgangi hefur verið sótt um styrki til RANNÍS og í rannsóknasjóði Evrópusambandsins. Jafnframt veitir Nordic Innovation áframhaldandi styrk til rannsókna á íslenskum jarðefnum.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér