Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýsköpunarhugmyndir grunnskólanemenda verðlaunaðar í Sólinni

23.5.2017

Klemmusnagi, hitaskynjari fyrir krana og einföld markatöng voru þær þrjár hugmyndir sem þóttu hvað bestar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í ár. Lokahóf Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2017 var haldið í HR síðastliðinn laugardag.

Dómnefnd valdi 25 hugmyndir sem komust í úrslit og í vinnusmiðju sem haldin var í síðustu viku í Háskólanum í Reykjavík. Nemendurnir komust í gegnum matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi.

Fjölbreyttar hugmyndir hvaðanæva að

Yfir 1100 hugmyndir frá 34 skólum víðs vegar af landinu bárust í keppnina. Í fyrsta sæti keppninnar í ár voru þau þau Arna Sól Orradóttir í 5. bekk Seljaskóla með hugmynd sína „Klemmusnagi“, Hjálmar Þór Helgason í 6. bekk Brúarskóla fyrir „Hitaskynjara fyrir krana“ og Indriði Ægir Þórarinsson ásamt Óskari Aroni Stefánssyni í 7. bekk Varmahlíðarskóla fyrir „Einfalda markatöng“. Fyrir fyrsta sæti hlutu vinningshafar fartölvu og gjafabréf í FabLab-smiðjuna í verðlaun. Upplýsingar um nemendur í 2. -3. sæti og fleiri nemendur sem hlutu viðurkenningar má finna á vef Nýsköpunarkepppni grunnskólanna.

Nyskopunarkeppni_grunnskolanna2017Hugvitssamir grunnskólanemar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og aðstandendum keppninnar.

Ræðubikar JCI var afhentur fyrir góða færni þátttakenda við að koma hugmyndum sínum á framfæri í ræðuformi, tæknibikar Pauls Jóhanssonar var afhentur og forritunarverðlaun NKG og Kóðans 1.0. Þórdís Sævarsdóttir, kennari í Dalskóla, hlaut Viljann, hvatningarverðlaun fyrir framlag til eflingar nýsköpunarmenntunar og nafnbótina „Nýsköpunarkennari grunnskólanna árið 2017“.

Um Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda er keppni í nýsköpun fyrir 5.- 7. bekk grunnskólanna en keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og er nú haldin í 27. sinn. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.

Keppnin hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Eigandi Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er mennta- og menningarmálaráðuneytið en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.

Sjá myndir frá lokahófinu á Facebook-síðu Nýsköpunarkeppni grunnskólanna