Nýsköpunarvika // Áhugi lykilatriðið í nýsköpun
HR er bakhjarl Nýsköpunarviku 2023
Háskólinn í Reykjavík er bakhjarl Nýsköpunarviku, eða Iceland Innovation Week, sem nú er haldin í fjórða sinn. Nýsköpunarvika er einskonar uppskeruhátíð að erlendri fyrirmynd, og sem dæmi má nefna eiga Norðurlöndin sínar eigin nýsköpunarhátíðir þar sem frumkvöðlar mæta fjárfestum.
Katrín Sif Oddgeirsdóttir er verkefnastjóri atvinnulífstengsla og nýsköpunar í HR.
Á mánudag fór fram hádegisfyrirlestur í stofu V101, þar sem starfsmenn HR auk fulltrúa sprotafyrirtækja sem sprottin eru úr HR, deildu sinni sýn á nýsköpun og fræddu gesti um framlag HR til nýsköpunarsenunnar á Íslandi. Katrín Sif ræddi þar nýsköpun í Háskólanum í Reykjavík.
Hallur Þór Sigurðarson, lektor við viðskiptafræðideild HR, hélt einnig erindi um kennslu í frumkvöðlafærni og nýsköpun. Þá var Stefán Ólafsson, lektor við tölvunarfræðideild með erindi um gervigreind og nýsköpun.
Fulltrúar tveggja sprotafyrirtækja sem sprottin eru úr nýsköpunarumhverfi HR kynntu starfsemi sína fyrir gestum. Þar voru fulltrúar Treatably, sem sérhæfa sig í bættu meðferðarferli á krónískum sjúkdómum. Þá mættu fulltrúar Tiro, sem þróað hafa vöru í kringum talgreini sem kallast rauntímatextun.
Öflugt þverfaglegt samstarf
Katrín Sif segir nýsköpun vera viðamikinn þátt í allri starfsemi háskólans, og sú áhersla sé þvert á allar deildir. Þá sé þverfaglegt samstarf milli deilda veigamikill þáttur í starfi HR, sem hafi öfluga og ört vaxandi taug við atvinnulífið.
„Það er rosalegur nýsköpunarkraftur í HR sem kom mér á óvart þegar ég byrjaði að starfa í HR,“ segir hún.
Ég vissi að HR væri háskóli nýsköpunar, en við erum ofboðslega framsækin hvað varðar rannsóknir og kennslu.
Katrín Sif nefnir sem dæmi svefnsetrið sem hefur verið flaggskip svefnrannsókna hér á landi. Þá nefnir hún einnig sem dæmi ICAM, sem er skammstöfun fyrir Icelandic Center for Advanced Addictive Manufacturing.
Hver er stærsti flöskuhálsinn sem þeir sem starfa í nýsköpun þurfa að eiga við?
„Þegar þú ert í nýsköpun er fjármagn helsti flöskuhálsinn, en einnig hvernig þú kemur hugmyndinni á framfæri. Og síðan, hvernig tengslamyndunin er. Hvert sækirðu fjármagn og þegar að því er komið, hvernig þú skalar fyrirtækið,“ útskýrir Katrín Sif.
En þar hljóta nemendur skólans að vera með forskot, varðandi tengslanetið, aðgang að styrkjum og öðru?
„Já við teljum svo. Flestir nemendur í grunnámi sækja áfangann Nýsköpun og stofnun fyrirtækja þar sem þau fara í gegnum viðskiptahraðal og fá kennslu og innsýn frá reyndum sérfræðingum úr atvinnulífinu. Við sjáum þessar hugmyndir sem nemendur fá þróast áfram og jafnvel fara í Gulleggið. Ég myndi segja að það væri stór partur af frumkvöðlamenningu nemenda að taka þennan áfanga í byrjun. Þar blandast saman nemendur úr öllum deildum skólans og áherslur eiga snertifleti við margar áskoranir samfélagsins á sviði samfélagslegrar nýsköpunar, sjálfbærni og tækni.“
Hvað varðar skilaboð til þeirra sem hafa áhuga á nýsköpun og eru enn að velja sér háskólanám við hæfi, svarar Katrín Sif að bragði:
Ég myndi segja: Farðu að læra það sem þér finnst skemmtilegt og hefur áhuga á. Hafa gaman af því sem þú ert að gera og vera óhrædd við að gera mistök, þau eru til þess að þroska mann og læra. Vera opinn fyrir félagslífinu í HR, opinn fyrir tækifærum í starfsnámi og skiptinámi. En lykilatriðið er að hafa áhuga á því sem þú ert að gera og hafa gaman.