Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Nýtt diplómanám í verslunarstjórnun í samstarfi tveggja viðskiptadeilda

1.12.2017

Áhugasamt verslunarfólk getur nú skráð sig í nýtt nám í verslunarstjórnun. Námið er samstarf viðskiptadeilda Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst en námið er jafnframt þróað í samvinnu við Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunarinnar, VR og Samtök verslunar og þjónustu. Námið byggir meðal annars á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra, viðhorfskönnun meðal starfandi verslunarstjóra og samvinnu um þróun þess í samstarfi við lykilfyrirtæki í verslun og þjónustu.

Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna króna veltu. Nýja námið á að koma til móts við þarfir þessa hóps fyrir viðskiptafræði- og stjórnendamenntun og gera hann  betur í stakk búinn til að takast á við dagleg störf. Námið er metið til eininga í áframhaldandi nám í viðskiptafræði til BSc-gráðu bæði við HR og Bifröst.

Þeim umsækjendum sem vilja taka grunnáfanga í viðskiptafræði, auk birgða-, vöru og rekstrarstjórnunar á vormisseri 2018 og flýta þannig fyrir sér, er bent á að umsóknafrestur um grunnáfanga er til 10. desember nk. Almennur umsóknarfrestur í námið er hins vegar til 20. janúar 2018.


Afgreiðslumaður gefur viðskiptavini ráð inni í verslun