Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýtt íslenskt fræðirit um sjórétt komið út

13.3.2017

Guðmundur stendur við bryggjuFræðirit, kennslubók og handbók fyrir atvinnulífið

 

Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild HR, er einn höfunda ritsins Sjóréttur en það er bókaútgafan Codex sem gefur bókina út. Ekkert íslenskt rit er til um sama efni. Bókinni er ætlað það hlutverk að gefa heildstæða mynd af íslenskum sjórétti þó megináherslan sé lögð á þau svið réttarins sem skipta hvað mestu máli í daglegri framkvæmd hér á landi. Því er talsverð áhersla lögð á umfjöllun um réttarreglur varðandi farmflutninga til og frá landinu. Ritið er allt í senn, fræðirit, kennslubók og handbók fyrir atvinnulífið. 

„Það hefur lítið verið skrifað um íslenskan sjórétt eftir 1990 en fyrir eyland eins og Ísland er þetta svið lögfræðinnar afar mikilvægt, “sagði Guðmundur í viðtali við Tímarit HR árið 2015 um gerð bókarinnar sem þá var nýhafin. „Ég vil að rannsóknir mínar séu hagnýtar. Þó við kunnum að þurfa að taka tillit til alþjóðlegra samninga á sviði sjóréttar opna þeir þó oft á sérlausnir. Við höfum því alla möguleika á að búa þannig um hnútana að íslenskt regluverk mæti þeim þörfum sem nútímasiglingar kalla eftir en tryggi jafnframt íslenska hagsmuni.“

Sjorettur

Ásamt Guðmundi eru Hans Jacob Bull og Thor Falkanger höfundar bókarinnar. Ritið er samstarfsverkefni höfundanna þriggja en norskt rit um Sjørett eftir Hans Jacob Bull og Thor Falkanger er sú fyrirmynd sem stuðst er við að hluta. Íslenskur sjóréttur er þó á köflum talsvert ólíkur þeim norræna og eru margir kaflar bókarinnar því frábrugðnir því sem er í norsku útgáfunni. Bókina má nálgast meðal annars hjá Bóksölu stúdenta, Háskólatorgi og völdum verslunum Pennans/Eymundssonar.