Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýtt meistaranám í hagnýtri atferlisgreiningu

29.3.2019

Næsta haust mun fyrsti árgangur í nýju MSc-námi í hagnýtri atferlisgreiningu setjast á skólabekk við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Námið er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Bóklegur hluti námsins, sem kenndur er í HR, er með samþykki Alþjóðlegrar vottunarnefndar atferlisfræðinga. Vottunarnefndin (Behavior Analyst Certification Board) veitir sérfræðivottun í atferlisgreiningu en til að hljóta vottunina þurfa nemendur að ljúka handleiðslutímum og taka próf. Mikil eftirspurn er eftir atferlisfræðingum hér á landi, í Evrópu og í Bandaríkjunum. Löggilding á þessu sviði er því dýrmæt í atvinnulífinu bæði hér heima og erlendis.

Boðið er upp á nýtt meistaranám í hlutanámi sem gefur þeim nemendum sem það kjósa tækifæri til að sameina nám og hlutastarf á vettvangi.

Hvað gera atferlisfræðingar?

Berglind Sveinbjörnsdóttir

Í hagnýtri atferlisgreiningu er lögð áhersla á að nýta gagnreyndar aðferðir við að aðstoða einstaklinga sem eiga við ýmsa örðugleika að stríða til dæmis tengda hegðun, mataræði, svefni, námi og félagsfærni. Atferlisfræðingar leggja áherslu á einstaklingsmiðað nálgun og er velferð skjólstæðingsins alltaf í fyrirrúmi. Atferlisfræðingar eru starfandi víða í samfélaginu, en margir starfa í leikskólum, grunnskólum og þjónustustofnunum.

Dr. Berglind Sveinbjörnsdóttir kom nýja meistaranáminu á legg en hún er lektor í sálfræði við HR og  atferlisfræðingur. Hún hefur unnið með börnum og unglingum sem voru meðal annars með alvarlegan hegðunarvanda og svefnvanda. Að hennar sögn munu nemendur vera í stakk búnir til að kenna þessum hópi, ásamt öðrum, að takast á við vandann.

Íhlutun í stað lyfja

„Aðferðir atferlisfræðinnar gefa mjög góða raun, sérstaklega ef gripið er inn í þegar þau eru ung og minnka þannig líkurnar á inngripum sem gætu haft aukaverkanir, svo sem lyfjagjöf. Lyfjagjöf við svefn- og hegðunarvanda barna er algeng á Íslandi en í rannsókn meistaranema undir handleiðslu Berglindar frá árinu 2017 kom fram að foreldrum barna með þroskahamlanir og þroskaraskanir, sem leituðu meðferðar vegna svefnvanda barnanna, var í flestum tilvikum ráðlögð lyfjameðferð. Mjög takmarkaðar rannsóknir eru til um langtímaáhrif lyfjanotkunar fyrir þennan aldurshóp. „Það er skref í rétta átt að bjóða upp á vottað meistaranám í hagnýtri atferlisgreiningu.“

Kona situr í fyrirlestrasal og hlustar