Aukin áhersla á gervigreind í meistaranámi í tölvunarfræði
Miðstöð stafrænnar nýsköpunar (e. European Digital Innovation Hub Iceland - EDHI-IS) tók til starfa þann 2. febrúar síðastliðinn. Af því tilefni var haldin opnunarathöfn í Grósku þar sem Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, flutti erindi og ræddi þar meðal annars um nýjar áherslulínur í gervigreind, sem falla undir EDIH verkefnið.
Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir opnaði Miðstöðina formlega og tengdi samstarfsaðilana, Auðnu Tæknitorg, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Rannís, Origo Iceland og Syndis saman á táknrænan hátt.
Hlutverk HR í EDIH verkefninu snýst meðal annars um að HR stofni nýtt nám í Digital Transformation með áherslu á gervigreind. Einnig er í undirbúningi tölvuöryggis (e. Cybersecurity) lína ásamt fleiri áherslulínum sem munu að öllum líkindum líta dagsins ljós á næsta ári.
Hlutverk Miðstöðvar stafrænnar nýsköpunar er að safna saman og miðla þekkingu í gervigreind, notkun ofurtölva og tölvuöryggi með því að stuðla að aukinni menntun, bjóða upp á „þróið og prófið“ þjónustu og ráðgjöf í fjármögnun ásamt því að þjóna samfélaginu á sviði stafrænnar nýsköpunar. EDIH á Íslandi er hluti af 225 miðstöðva neti samskonar miðstöðva út um alla Evrópu.