Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýtt nám Tækniskólans sniðið að aðgangskröfum HR

2.3.2016

Samstarf framhaldsskóla, háskóla og atvinnulífs

Tækniskólinn mun frá og með næsta hausti bjóða nemendum sem útskrifast úr grunnskóla upp á nýja tækni- og vísindabraut til stúdentsprófs. Hún hefur hlotið nafnið K2. Námið er skipulagt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, ásamt tæknifyrirtækjum, og er sniðið að aðgangskröfum HR í tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild. Markmiðið með stofnun brautarinnar er að efla tækni- og vísindanám á Íslandi með nánu samstarfi framhaldsskóla, háskóla og atvinnulífs.

Að sögn Ara Kristins Jónssonar, rektors HR er nýja námsbrautin mikilvægt og jákvætt skref í að efla enn frekar tækifæri og áhuga til verk- og tæknináms. Því sé það ánægjuefni að vinna með Tækniskólanum í mótun og þróun námsbrautarinnar. „Markmiðið er að innihald og gæði námsins verði í samræmi við kröfur háskólans, svo nemendur með góð stúdentspróf af brautinni muni eiga greiða leið inn í tækninám í HR.”

Um námið

Námsbrautin ber heitið K2 tækni- og vísindaleiðin, með skírskotun í frægan fjallstind. Nafnið vísar þannig í  einstaka áskorun í námi og sex annir brautarinnar hljóta nöfn búða líkt og í fjallgöngu. Nemendur hefja nám í grunnbúðum, taka síðan forritunarbúðir, vísindabúðir o.fl. og enda á toppnum við útskrift. Hverri önn er síðan skipt upp í 3 – 4 lotur þar sem ein námsgrein er kennd í einu eða tvær námsgreinar eru tengdar saman í kennslu. Gert er ráð fyrir því að um 25 – 30 nemendur verði teknir inn á haustönn 2016. Umsóknarfrestur er til og með 10. júní.

Frekari upplýsingar veitir Hulda Birna Baldursdóttir, verkefnastjóri brautarinnar, í síma 660 1973 eða í gegnum tölvupóst hbb@tskoli.is.