Segir of mikla áherslu á notkun lyfja í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma
Það er of allt of mikil áhersla lögð á notkun lyfja við hjarta- og æðasjúkdómum, segir dr. Jack James prófessor við sálfræðisvið HR í bréfi í nýjasta tölublaði læknablaðsins The Lancet. Þar gagnrýnir hann vísindagrein sem birtist þar nýlega en í henni er fjallað um nýjar lyfjafræðilegar aðferðir til að fást við háþrýsting.
Í bréfi sínu segir James meðal annars að margsýnt sé að tiltölulega einfaldar lífstílsbreytingar hafi miklu meiri áhrif en lyf í þessu sambandi. Þannig sýni samantekt á niðurstöðum úr ellefu stórum faraldsfræðilegum rannsóknum í þróuðum ríkjum að lífstílsbreytingar haft meiri áhrif til fækkunar á tilfellum kransæðasjúkdóms en lyfjameðferð og læknismeðferð. „Þetta hefur meðal annars þýðingu varðandi umræður hér á landi um þörfina á því að setja meiri peninga í heilbrigðiskerfið. Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á forvarnir því þær skila sér beint í minni kostnaði síðar,“ segir Jack.
Í bók sinni The Health of Populations: Beyond Medicine, sem kom út árið 2015 fjallar Jack um áherslur í heilbrigðisþjónustu. „Heilbrigðisþjónusta okkar í dag er að mestu leyti byggð á þeirri hugmynd að bæta megi heilsu fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma með framförum í læknavísindum. Við hugsum minna út í ávinninginn af því að beita löggjafarvaldi og félagslegu inngripi í lífi fólks.“
Hann segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, hafa varað við því á sjöunda áratugnum að á næstu áratugum myndi bresta á faraldur sjúkdóma sem smitast ekki, eins og krabbameins, hjartasjúkdóma, sykursýki og Alzheimers. „Þessi faraldur er nú viðvarandi. Vísindin sýna að læknavísindin leysa ekki stór heilsufarsvandmál.“