Fréttir eftir árum


Fréttir

Oftast leitað til lögfræðiþjónustu Lögréttu vegna erfðamála og réttinda leigjenda

18.10.2016

Við lagadeild Háskólans í Reykjavík er starfrækt lögfræðiþjónusta Lögréttu, Lögfróður, sem býður upp á lögfræðiráðgjöf almenningi að kostnaðarlausu. Hjá Lögfróði starfa þriðja, fjórða og fimmta árs laganemar.

Málin sem rata á borð lögfræðiþjónustunnar eru af ýmsum toga en þó eru ákveðin mál algengari en önnur, að sögn Tinnu Daggar Guðlaugsdóttur, framkvæmdastjóra Lögfróðs. Þar má nefna erfðamál, hjúskaparmál eða mál sem varða rétt leigjenda. „Tíðarandinn í samfélaginu hefur líka áhrif. Í kjölfar bankahrunsins kom holskefla af málum sem tengdust lánasamningum og lögmæti þeirra,“ segir Tinna. Hún segir þjónustuna koma þeim vel sem gæti þótt óþægilegt að leita til lögfræðings og fá álit. Einnig veit fólk stundum ekki hvert á að snúa sér með sitt mál. „Þá er tilvalið að hafa samband við okkur og við getum leiðbeint fólki í rétta átt.“

Tinna segir laganema læra mikið af því að ráðleggja skjólstæðingum sínum. „Það að starfa sem sjálfboðaliði hjá lögfræðiþjónustunni er gríðarlega lærdómsríkt og ekki síst mikilvæg reynsla og þjálfun í að fá að glíma við raunveruleg mál.“

Undanfarin ár, í mars, hefur Lögfróður staðið fyrir Skattadeginum en þá aðstoða laganemar almenning við gerð skattframtala og þeim innan handa hafa verið sérfræðingar frá KPMG. Þá hefur einnig hefur verið boðið upp á túlkaþjónustu en hún getur þó verið breytileg frá ári til árs.

Logfraedithjonusta_Logrettu

Framkvæmdastjórn Lögfróðs 2016-2017: Tinna Dögg Guðlaugsdóttir, Karen Björnsdóttir og Arna Hrönn Ágústsdóttir.

Margar leiðir til að hafa samband

Lögfræðiþjónustan er opin á miðvikudögum frá 17-19 og er staðsett við aðalinngang Háskólans í Reykjavík þar sem hægt er að mæta á staðinn. Einnig er tekið við erindum í síma 777-8409, í tölvupósti á logfrodur@ru.is eða í skilaboðum í gegnum Facebook-síðu lögfræðiþjónustu Lögréttu – Lögrétta Legal Aid. Þjónustan er í boði frá byrjun september til maí, að undanskildum prófatímabilum. Þess má einnig geta að laganemarnir eru bundir þagnarskyldu við störf sín hjá Lögfróði.

Lesa um nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík

Lesa um Lögréttu - félag laganema við Háskólann í Reykjavík