Fréttir eftir árum


Fréttir

Öll kennsla HR færð á stafrænt form vegna samkomubanns

13.3.2020

Vegna samkomubanns, sem ríkisstjórn Íslands greindi frá í dag, sem lið í aðgerðum til að stemma stigu við COVID-19 faraldrinum, mun öll kennsla við Háskólann í Reykjavík færast á stafrænt form frá og með miðnætti, aðfaranótt mánudagsins 16. mars. Það er skýrt markmið háskólans að tryggja að ekki verði töf á framvindu náms, að námskeið annarinnar klárist á réttum tíma og að nemendur útskrifist á réttum tíma í júní.

Undirbúningur fyrir samkomubann hefur átt sér stað um nokkurt skeið samkvæmt aðgerðaáætlun HR vegna COVID-19 og starfsfólk háskólans og nemendur eru því vel undirbúin fyrir þetta skref. Kennarar hafa fengið leiðbeiningar um hvernig hægt er að breyta kennslufyrirkomulagi og voru nýlega hvattir til færa alla sína kennslu yfir á stafrænt form. Margir kennarar hafa notað undanfarna daga til að ná tökum á öðrum stafrænum kennsluháttum en þeir eru vanir.

Samkvæmt viðbragðsáætlun verður verklegum námsþáttum námskeiða frestað eða fundnar leiðir til að endurskipuleggja verklega hluta námskeiða þannig að mögulegt sé að vinna þá utan háskólans. Kennurum verður ennfremur heimilt að breyta eða fella niður námsmatsþætti eins og verkefni, verklega námsþætti, próf, ritgerðir, o.s.frv. Útreikningi einkunna verður breytt í samræmi við að þessir námsþættir falli niður.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að húsið verði ekki aðgengilegt nemendum á meðan á banninu stendur. Áfram verður veitt þjónusta við nemendur, en á stafrænan hátt. Nemendur hafa fullt aðgengi að húsinu um helgina og eru hvattir til að taka með sér og ganga frá því sem þarf áður en að bann við samkomum tekur gildi.

Aðstæður eru fordæmalausar en Háskólinn í Reykjavík, nemendur hans og starfsfólk eru vel í stakk búin til að takast á við fyrirliggjandi verkefni. Starfsfólk og nemendur eru hvött til að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir, gæta vel að sínum nánustu og styðja við þá sem þurfa.