Fréttir eftir árum


Fréttir

Opið fyrir umsóknir í Háskólagarða HR

2.6.2020

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um íbúðir og herbergi í nýjum Háskólagörðum Háskólans í Reykjavík. Háskólagarðarnir standa við Nauthólsveg, við rætur Öskjuhlíðar.

Verið er að leggja lokahönd á íbúðirnar og þær verða tilbúnar til afhendingar í haust. Í þessum fyrsta áfanga, sem er tæpir 5.900 fermetrar á 4-5 hæðum, verða 122 leigueiningar í boði fyrir námsmenn. Um er að ræða einstaklingsherbergi með sameiginlegu eldhúsi, einstaklingsíbúðir, paraíbúðir og fjölskylduíbúðir. Einstaklingsherbergin eru fullinnréttuð og í sameiginlegu eldhúsi verða öll nauðsynleg tæki og borðbúnaður. Þráðlaust net verður í öllum rýmum.

Nánari upplýsingar og reglur um úthlutun eru á vef HR.

Byggingafélag námsmanna sér um móttöku og afgreiðslu umsókna. Sótt er um á vef þeirra.

Bygging sambærilegs húss með 130 útleigueiningum fyrir stúdenta og þremur íbúðum fyrir kennara er þegar komin langt á leið. Miðað er við að það hús verði tilbúið til útleigu skólaárið 2021-2022.

Alls er gert ráð fyrir fjórum áföngum í byggingu Háskólagarðanna. Verkið gengur vel og er uppbygging á undan áætlun og í samræmi við kostnaðaráætlanir. Það eru Kanon arkitektar sem hanna byggingarnar og verktaki er Jáverk.

Nýbygging