Fréttir eftir árum


Fréttir

Opið hús í Háskólanum í Reykjavík 1. júní

Ánægjulegt að geta boðið þeim sem eru að íhuga háskólanám að koma í HR og spjalla við nemendur og kennara, segir Ari Kristinn Jónsson, rektor.

28.5.2021

HR býður útskriftarnemum framhaldsskólanna, foreldrum og öðrum áhugasömum á opið hús, þriðjudaginn 1. júní kl. 15 til 19. Opið er fyrir umsóknir í grunnnám í HR til og með 5. júní. 

HR býður útskriftarnemum framhaldsskólanna, foreldrum og öðrum áhugasömum á opið hús.

Allar sjö akademískar deildir háskólans: verkfræðideild, tölvunarfræðideild, iðn- og tæknifræðideild, íþróttafræðideild, sálfræðideild, lagadeild og viðskiptadeild, kynna nám sitt á básum sem dreifðir verða um húsnæði háskólans. Hægt verður að skoða námsaðstöðu og aðstöðu fyrir verklegt nám, spjalla um námið og lífið í HR við nemendur og kennara og náms- og starfsráðgjafar háskólans aðstoða við val á námi og umsóknarferlið. Þá kynnir Háskólagrunnur HR undirbúningsnám fyrir háskóla og viðbótarnám við stúdentspróf og Opni háskólinn hótelstjórnunarnám og námsráðgjöf, bókasafn og alþjóðaskrifstofa kynna þjónustu sína.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir að það sé virkilega ánægjulegt að fá nú loksins tækifæri til að bjóða gestum í hús. „Fjölmargir framhaldsskólanemar og foreldrar hafa haft samband við okkur undanfarið og óskað eftir því að fá að koma í heimsókn og það er virkilega ánægjulegt að geta nú orðið við óskum þeirra. Val á háskólanámi er stór og mikilvæg ákvörðun og við viljum gera allt sem hægt er til að aðstoða við valið. Við hlökkum því til að taka á móti gestum, kynna námið í HR og svara spurningum,“ segir hann.

Ítrustu sóttvarna verður gætt á viðburðinum. Einstefna verður í gegnum húsið sem skipt verður í tvö 150 manna sóttvarnarhólf. Allir snertifletir verða sótthreinsaðir reglulega, starfsfólk verður með grímur og óskað er eftir því að gestir beri einnig grímur.