Fréttir eftir árum


Fréttir

Orkumál á norðurslóðum rædd

4.11.2014

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, stofnaði formlega The Future Arctic Energy network (FAE) við HR síðastliðinn fimmtudag. FAE er tengslanet ungs háskólafólks og fagfólks sem lætur sig orkumál á norðurslóðum varða. Stofnendur tengslanetsins eru fjórir meistaranemar við Iceland School of Energy í HR.

Auk þess var haldinn fjölmennur fundur sem var opinn almenningi undir yfirskriftinni „Tækifæri til framtíðar á sviði orkumála“. Þar fluttu fræðimenn frá HR, Tufts-háskóla, Harvard-háskóla og Háskólanum í Kentucky erindi um orkumál. Sem dæmi má nefna athyglisverð erindi um orkustefnur Indlands og KÍna sem eru í þessu samhengi gríðarlega mikilvægar fyrir heimsbyggðina. Fundurinn var skipulagður í tengslum við Arctic Circle Assembly.

Dr. Bill Moomaw

Meðal fyrirlesara var dr. William Moomaw sem var fulltrúi í IPCC Nóbelsverðlaunapanel Sameinuðu þjóðanna sem hlaut verðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum ásamt Al Gore.

Future Arctic Energy

Tilgangur með FAE-tengslanetinu er að skapa tækifæri fyrir háskólanema og ungt fagfólk til að vera þátttakendur í umræðu um orkumál á Norðurslóðum. FAE stefnir að því að vekja áhuga á og hvetja til þátttöku ungs fólks í rannsóknum á sviði orku og Norðurslóðamála, og efla nýsköpun á þessu sviði til framtíðar.

Markmið

  • Búa til vettvang þar sem háskólanemar geta birt greinar.
  • Standa að vinnustofum og samstarfsverkefnum sem koma ungu fólki á framfæri.
  • Styrkja rannsóknir og starfsþróun ungs fólks með samstarfi við leiðbeinendur.
  • Hvetja ungt fólk til rannsókna og starfa á sviðinu með styrk til náms við Íslenska orkuskólann í HR (Iceland School of Energy).
  • Starfa með svipuðum tengslanetum, stofnunum og samtökum um allan heim varðandi málefni norðurslóða og endurnýjanlegrar orku til að finna megi sjálfbærar og umhverfisvænar lausnir. 

Meistaranemum við Iceland School of Energy bauðst svo að taka þátt í vinnustofum með sérfræðingum úr orkugeiranum á Íslandi.

Orkumálin rædd í HR

Fleiri myndir frá deginum eru á facebook-síðu HR