Fréttir eftir árum


Fréttir

Ósanngjarnt að neita fólki um meðferð sem virkar

26.1.2016

Þessa vikuna stendur yfir vitundarvakning í HR um geðheilbrigði. Átakið samanstendur af opnum fyrirlestrum um geðheilbrigði og tengd málefni í HR.

Aðalfyrirlesari vikunnar er David M. Clark, prófessor við Háskólann í Oxford og einn þekktasti sérfræðingur heims á þessu sviði. Hann flutti fyrirlestur sinn í gær, mánudag, fyrir fullum sal auk þess sem fjöldi manns fylgdist með viðburðinum á netinu.

Fyrirlestur Clarks hét Implementing evidence-based Psychological Therapy Services: the IAPT experience. Hann greindi frá umfangsmiklu og árangursríku verkefni sem snýr að því að auka vægi sálfræðimeðferðar í almennri heilsugæslu í Bretlandi. Clark sagðist vona til að verkefni sem unnin hafa verið á þessu sviði í Englandi nýtist Íslendingum að einhverju leyti. Hann hóf fyrirlesturinn á jákvæðum nótum og sagði batahorfur þeirra sem glíma við geðræn vandamál hafa aukist mikið á undanförnum tveimur áratugum. Þar hafi sýnt sig að blanda lyfjameðferðar og sálfræðimeðferðar sé best í baráttunni við geðsjúkdóma og geðræn vandamál. 

Sálfræðimeðferð stendur þó ekki öllum til boða eins og lyfin gera. „Það er ekki sanngjarnt. Að neita fólki um meðferð sem virkar.“ Hann segir að þó að sýnt hafi verið fram á mikilvægi sálfræðimeðferðar séu bara 15% Breta sem fái slíka meðferð. Ein af ástæðum þess sé ef til vill orðin sem notuð eru til að lýsa meðferðaraðferðum öðrum en lyfjameðferðum. Clark lýsti margvíslegum aðferðum sem notaðar eru til að sýna fram á að hugtakið „talmeðferð“ dugir ekki til að lýsa þeim vísindalegu aðferðum sem notaðar eru og sannað er að virka.  

Clark greindi frá IAPT-verkefninu (Improving Access to Psychological Therapies Programme) en tilgangur þess er að útvega sem flestum sem glíma við þunglyndi sálfræðimeðferð við hæfi. Þetta hefur gefið góða raun í Bretlandi. Hægt er að sjá fyrirlestur Davids Clark á slóðinni: 

http://livestream.com/ru/davidmclark

Það eru sálfræðisvið og náms- og starfsráðgjöf Háskólans í Reykjavík sem skipuleggja geðheilbrigðisviku í HR.