Fréttir eftir árum


Fréttir

Páll M. Ríkharðsson verður forseti viðskiptadeildar

10.8.2016

Dr. Páll M. Ríkharðsson hefur verið ráðinn forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík frá og með 15. ágúst næstkomandi. Hann tekur við stöðunni af dr. Þórönnu Jónsdóttur sem hefur verið forseti deildarinnar frá 2013. 

Páll var skipaður prófessor við viðskiptadeild HR fyrr á þessu ári og hefur gegnt stöðu dósents í hlutastarfi frá árinu 2007 og fullri stöðu síðan 2012. Hann hefur auk þess verið forstöðumaður námsbrauta í upplýsingastjórnun, stjórnunarreikningsskilum, endurskoðun og fjármálum.

Páll Melsteð Ríkharðsson

Páll lauk doktorsprófi í viðskiptafræði árið 1997 frá Aarhus School of Business i Árósum í Danmörku, meistaraprófi frá sama skóla árið 1993 og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla íslands árið 1991. Hann hefur víðtæka reynslu og þekkingu á fjölbreyttum sviðum íslensks og alþjóðlegs viðskiptalífs og hefur birt fjölda greina um viðskiptagreind, stjórnunarreikningsskil og innra eftirlit. 

Hann hefur á síðustu árum meðal annars leitt rannsóknarverkefni um stjórnunarreikningshaldsaðferðir í íslenskum fyrirtækjum og um breytingar á stjórnkerfum íslensku bankanna síðan 2008. Frá 2007 til 2012 starfaði Páll sem ráðgjafi hjá SAS Institute og PwC og í hlutastarfi 2012-2015 hjá Herbert Nathan & Co í Kaupmannahöfn. Áður hafði hann starfað sem ráðgjafi hjá PwC á árunum 1994 til 2000. Hann gegndi stöðu dósents í reikningshaldi og upplýsingatækni við Aarhus School of Business 2000-2007 og hefur undanfarin ár einnig kennt við Árósarháskóla og Copenhagen Business School.