Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

„Planið var óbreytt en svo sá maður það að myndi ekki standast“

14.5.2020

„Við erum að sjá margar mjög áhugaverðar hugmyndir og svo fjölmargar sem eru fyrirsjáanlegri en það er bara eðlilegt. Markhópar þjónustunnar eru aðrir en oft hjá ungu fólki í nýsköpun eins og t.d. eldri borgarar. Það er virkilega gaman að sjá það.“

Guðmundur Hafsteinsson - Frumkvöðull

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi, kennir námskeiðið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja í ár ásamt Hrefnu Briem, forstöðumanni grunnnáms við viðskiptadeild. Þar þróa nemendur á fyrsta ári eigin nýsköpunarhugmynd ásamt því að gera markaðsáætlun og frumgerð. Námskeiðið er eitt af svokölluðum þriggja vikna námskeiðum sem nemendur ljúka síðast á námsárinu.

Maður situr við skrifborð

112 hugmyndir

Nýsköpun og stofnun fyrirtækja er stærsta þriggja vikna verkefnið í HR og árlega jafnframt eitt stærsta nýsköpunarátak landsins en núna vinna nemendur í 112 hópum við að þróa jafnmargar nýsköpunarhugmyndir. Þar sem tíminn er knappur gera nemendur og kennarar ekki mikið annað þessar þrjár vikur en að helga sig aðferðum nýsköpunar og nýjungum í kennslu.

„Það er nóg að gera, og já, þetta er svolítið öðruvísi!“ segir Guðmundur. 

Við erum með 560 nemendur í fjarkennslu og við kennararnir erum að læra jafnóðum hvernig á að kenna svona stórum hópi nýsköpun með aðferðum fjarkennslunnar og án þess að fá að vera í sama rými og hóparnir sem svo aftur hittast ekki sín á milli heldur eru með fundi á netinu.

Allir að læra jafnóðum

Hrefna Briem hafði samband við Guðmund sem fannst þetta áhugaverð áskorun en þá voru áhrif heimsfaraldursins ókunn. „Þetta var mjög spennandi verkefni að halda utan um þegar við vorum búin að fara yfir þetta. Ég hef kennt áður við háskóla en alls ekki svona námskeið og, eins og kom í ljós síðar, með þessum hætti.“ Hann segir á þeim tímapunkti veiruna hafa verið í umræðunni en ekki búið að loka neinu. 

Planið var óbreytt en svo sá maður það að myndi ekki standast.

Hrefna hefur mótað námskeiðið í takt við nýjustu þekkingu á aðferðum nýsköpunar í hvert sinn og nú þurfti að taka stórt stökk yfir í rafræna kennslu, fyrirlestra, samtöl og ráðgjöf á netinu og því um að ræða nýsköpun í kennslu á sama tíma.

Maður situr við borð heima hjá sér og vinnur í tölvu

Kemur frá Kísildal

Guðmundur hefur varið meira en áratug við vöruþróun og nýsköpun í Kísildalnum í Kaliforníu sem er nokkurs konar ræktarsvæði fyrir nýjar hugmyndir og upprunastaður margra þekktra fyrirtækja í dag. Lengst af hefur Guðmundur starfað hjá Google við að þróa ýmsar lausnir eins og að gera GoogleMaps aðgengilegt í snjallsíma. Hann kom að þróun Siri hjá Apple og stofnaði eigið fyrirtæki sem svo var keypt af Google og gengur varan sem fyrirtækið þróaði núna undir nafninu Google Assistant. „Svo er maður með nokkur járn í eldinum en ekkert sem er opinbert ennþá,“ segir hann.

Skyrframleiðandi og ráðherra miðla þekkingu sinni

Aðrir sérfræðingar sem miðla af þekkingu og reynslu á námskeiðinu eru Siggi Hilmarsson, stofnandi Siggi‘s Skyr, Jake Knapp, höfundur Design Sprint, Davíð Helgason stofnandi Unity, Hilmar Veigar Pétursson stofnandi CCP, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar-, ferða- og nýsköpunarráðherra, Stefanía Ólafsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Avo, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect og Georg Lúðvíksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Meniga.

Erfitt að hitta ekki nemendur

Að kenna nýsköpun í fjarkennslu er áskorun að sögn Guðmundar. 

Svo ég tali út frá mér persónulega þá finnst mér erfitt að geta ekki gengið að hópi við borð í Sólinni og tekið stöðuna. Að fá ekki þessa dýnamík beint í æð og tala við þau í eigin persónu.

„Almenna reglan í verkefnum er sú að þeim mun meiri óvissa, þeim mun meiri nálægðar er þörf. Ef við tökum sem dæmi forritara sem á að skrifa kóða fyrir eitthvað ákveðið – ef þú getur einungis gefið honum grófa hugmynd, og hann á að finna út því er betra fyrir þig að sitja við hliðina á honum, annars stöðvast allt. Ef þú ert hins vegar með vel útlistaða áætlun og allt klappað og klárt geturðu fengið forritara hvar sem er í heiminum til að útfæra það. Við erum því að reyna að vera nálæg þó við getum ekki setið við hliðina á þeim.“

Innan skamms munu liggja fyrir hvaða hugmyndir þykja bestar og verður einkar spennandi að sjá hvað nemendum hefur dottið í hug til að bæta samfélagið og skapa störf. Í lok námskeiðsins verða veitt verðlaun fyrir bestu þrjár hugmyndirnar og aukaverðlaun í einstaka flokkum.

Taktu þátt!

Hægt er að sjá lesefni og fyrirlestra í námskeiðinu á vefnum.