Fréttir eftir árum


Fréttir

Plastþjappari, kartöfluplokkari, töfrabók og tölvuleikir

1.6.2015

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemendaÍ Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda leggja 5., 6. og 7. bekkingar fram hugmyndir sínar, vinna með þær í sérstakri vinnusmiðju og leggja þær svo fyrir dómnefnd.

Í ár bárust 1975 hugmyndir frá yfir 3000 hugmyndasmiðum um land allt. 54 hugmyndir voru valdar úr þeim mikla fjölda og mættu höfundar þeirra í Háskólann í Reykjavík í tvo daga til að þróa þær áfram í sérstakri vinnusmiðju.

Hugmyndirnar voru að venju afar fjölbreyttar og leystu ýmsar þarfir og vandamál í daglegu lífi. Sem dæmi má nefna töfrabók með skjá, app til að halda utan um hvað til er í ísskápnum, endurvinnanlegt dross sem fellur til í álframleiðslu, kartöfluplokkara, plastþjappara, fjarstýrðan snjómokstursbíl, heyrnartól með skynjara og heilsuapp sem spyr eigandann hvernig líðanin er reglulega yfir daginn.

Ungmennin uppfinningasömu unnu með hugmyndirnar, framsetningu þeirra og frumgerðir í verklegri vinnusmiðju sem haldin var í HR 28. - 29. maí. Nemendur útfærðu hugmyndir sínar með teikningum, forritun, gerð viðskiptalíkana, gerð margs konar frumgerða og þjálfun í framsögu. Leiðbeinendur í vinnusmiðju voru frá SKEMA, JCI, Einkaleyfastofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Arion banka, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands.

Lokahóf Nýsköpunarkeppninnar var haldið 31. maí sl. í Sólinni í HR. Þar stigu hugmyndasmiðir á stokk og sögðu frá uppfinningum sínum. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, tilkynnti hverjir hefðu hlotið verðlaun fyrir sínar hugmyndir þetta árið. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti farandbikar til nýsköpunarskóla ársins í flokki minni og stærri grunnskóla. Hofsstaðaskóli í Garðabæ, hreppti farandbikar í flokki stærri skóla sem fyrr. Grunnskóli Hornafjarðar hreppti verðlaunin í flokki smærri skóla.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, afhenti Ragnari K. Gestssyni hvatningarverðlaun fyrir áherslu á nýsköpun í kennslu og þar með titilinn „Nýsköpunarkennari grunnskólanna 2015“. Ragnar er kennari í barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Tilgangur Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda er að efla og þroska frumkvæði þátttakenda og nýsköpunarstarf í grunnskólum. Það er mennta- og menningarmálaráðuneytið sem stendur að keppninni. Verðlaun voru í boði Nýherja, Skema, HÍ, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og IKEA.