Fréttir eftir árum


Fréttir

Prófessor við HR gefur út bók um fjármálastærðfræði

19.11.2014

Bók um fjármálastærðfræðiDr. Sverrir Ólafsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, er einn þriggja höfunda nýrrar bókar um fjármálastærðfræði.

Bókaútgáfufyrirtækið John Wiley & Sons hefur gefið út bókina Problems and Solutions in Mathematical Finance: Stochastic Calculus Vol. 1“. Bókin, sem er sú fyrsta í röð fjögurra binda um fjármálastærðfræði, fjallar um stærðfræðileg undirstöðuatriði greinarinnar og hagnýtingu stærðfræðilegra aðferða við greiningu og verðlagningu á mismunandi fjármálagjörningum.

Markhópur bókarinnar eru meistaranemar og doktorsnemar í stærðfræði og fjármálafræðum, en hún mun einnig nýtast fræðimönnum og sérfræðingum á sviði fjármálaverkfræði og hagnýtrar stærðfræði. Seinni þrjú bindi bókarinnar verða gefin út á næstu þremur árum.

Höfundar bókarinnar, auk  dr. Sverris Ólafssonar, prófessors í fjármálaverkfræði við tækni– og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, eru Dr. Eric Chin og Mr. Dian Nel, sem starfa við Standard Chartered og Bank of America Merryll Lynch í London.

Sverrir Ólafsson

Auk þess að vera prófessor við Háskólann í Reykjavík er Sverrir jafnframt gestaprófessor við Queen Mary University í London. Áður starfaði Sverrir sem yfirmaður langtímarannsókna hjá British Telecom og fræðimaður við stærðfræðideildir Kings College í London, UMIST í Manchester og The University of Southampton. Sverrir hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá fjölda alþjóðlegra fyrirtæka og banka á sviði áhættustýringar og haldið námskeið og erindi um rannsóknir sínar á fjöldamörgum alþjóðlegum ráðstefnum.

Sverrir er með doktorsgráðu í fræðilegri eðlisfræði frá Háskólanum í Karlsruhe.

Lesa meira um bókina á vef útgáfufélagsins