Fréttir eftir árum


Fréttir

Prófessor við sálfræðisvið HR valin kona ársins

17.3.2016

Inga Dóra Sigfúsdóttir valin kona ársinsInga Dóra Sigfúsdóttir hlaut viðurkenninguna Kona ársins á 100. þingi Bandalags kvenna í Reykjavík þann 12. mars. Viðurkenninguna hlýtur hún fyrir starf sitt á sviði rannsókna á líðan barna og unglinga í nútímasamfélagi. Inga Dóra er prófessor við sálfræðisvið HR og stofnandi rannsóknarsetursins Rannsóknir og greining. 

Inga Dóra hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað líðan, heilsu og hegðun íslenskra barna í áraraðir, meðal annars með könnuninni Ungt fólk, sem lögð er reglulega fyrir íslensk ungmenni. Niðurstöður rannsókna hennar hafa verið notaðar hér á landi og erlendis, til dæmis til stefnumótunar í forvarnamálum. Í rannsókninni eru tengd saman mismunandi fræðasvið og skoðað er allt í senn; áhrifin á andlegu líðanina, á hegðunina, sem og líffræðilegu hliðina. Þannig eru tengdir saman þættir frá mismunandi fræðasviðum.

Inga Dóra hlaut í febrúar 2015 rannsóknarstyrk frá Evrópusambandinu að upphæð tvær milljónir evra eða um 300 milljónir íslenskra króna. Inga Dóra er annar Íslendingurinn sem hlýtur styrk frá European Research Council (ERC) og er afar sjaldgæft að fræðimenn sem einstaklingar fái svo stóran styrk en það er Inga Dóra sjálf sem stendur á bak við umsóknina.

Í frétt á vef Bandalags kvenna í Reykjavík kemur fram að samtökin telja mikilvægt að vekja athygli á því góða starfi sem unnið er á öllum sviðum samfélagsins og efla jákvæða samræðu.

Sjá frétt á vef BKR