Fréttir eftir árum


Fréttir

Rafmagnsverkfræðingar geta nú útskrifast frá HR og Aalto

19.1.2017

Meistaranemum í rafmagnsverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík býðst nú að ljúka tvíþættri meistaragráðu frá Aalto University í Finnlandi og HR. Nemendur munu útskrifast frá báðum háskólunum.

Mohamed Mohamed Abdelfattah, er lektor í rafmagnsverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR. Hann segir að með þessu nýja námi sé komið til móts við hluta nemenda í meistaranámi. „Marga nemendur okkar langar að læra erlendis í meistaranáminu en hafa ekki tök á því að dvelja í tvö ár í öðru landi, bæði vegna fjölskylduaðstæðna og fjárhags. Þarna er komið tækifæri fyrir þá nemendur að fara ákveðna millileið og stunda hluta námsins erlendis.“ Hann segist því líta á námið sem góða þjónustu við þennan hóp auk þess sem þetta sé tilraun í þróun náms við tækni- og verkfræðideild sem gæti orðið fyrirmynd fleiri slíkra tvíþættra gráða.

Mohamed segir það koma til greina að bjóða upp á slíkt nám í fleiri háskólum á Norðurlöndunum. „Við byrjum á Aalto og sjáum til með eftirspurnina.“ Hann segir Aalto-háskólann vera einn virtasta háskóla í Evrópu á sviði tækni og hafi getið sér gott orð fyrir nýjungar í kennslu og nútímalegt námsframboð. Nemendur við háskólann eru tæplega 20 þúsund talsins.

Mynd sem sýnir inn í Aalto háskóla60 ECTS frá hvorum háskólanum

Umsækjendur um námið geta jafnframt sótt um Erasmus-styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og uppihald í Finnlandi. Sótt er um hjá HR en báðir háskólarnir þurfa að samþykkja umsóknina. Til að ljúka MSc-gráðunni þarf 120 ECTS einingar, 60 frá hvorum háskólanum. Þar með talið er 30 ECTS lokaverkefni undir leiðsögn leiðbeinenda frá hvorum skólanum fyrir sig. Nemendur HR verða að dvelja í eina önn, hið minnsta, í Helsinki. Þannig verða væntanlega nemendur frá Aalto-háskóla við nám í rafmagnsverkfræði hér í HR á næsta ári. Þegar er byrjað að kenna með þessu fyrirkomulagi við HR og opið er fyrir umsóknir í Finnlandi þó að kennslan þar í náminu hefjist ekki fyrr en í ágúst. Nemendur HR borga skólagjöld við HR.

Um rafmagnsverkfræði

Rafmagnsverkfræði fjallar um uppbyggingu og rekstur raforkukerfa og framleiðslu raforku. Einnig fæst greinin við flutning orkunnar og hvernig hægt er að uppfylla kröfur um samfellda en breytilega raforkunotkun árið um kring. Rafmagnsverkfræði fjallar líka um það hvernig einstakir kerfishlutar eru byggðir upp, hvaða kröfur þarf að gera til þeirra og ekki síst hvernig þeir vinna saman sem ein heild á sem bestan og hagkvæmastan hátt.

Fara á síðu náms í raforkuverkfræði MSc