Fréttir eftir árum


Fréttir

Rannsaka kynjajafnrétti í íþróttum

24.8.2016

Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri íþróttafræðisviðs tækni- og verkfræðideildar, Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild, og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, aðjúnkt við íþróttafræðisvið, munu á næstu misserum rannsaka jafnrétti kynjanna í íþróttum hér á landi. 

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að gera ítarlega úttekt á stöðu jafnréttismála í íþróttum. Skoðað verður hvaða reglur gilda um jafnrétti kynjanna í íþróttum, hvort styrktaraðilar leggi jafnréttisviðmið til grundvalla fjárveitingum og hver staða jafnréttismála sé innan íþróttasambanda og -félaga. Rannsóknin er jafnframt liður í úrbótum á lagalegu umhverfi jafnréttismála hér á landi en ekkert hefur verið skrifað um lagalegar skuldbindingar ríkisins og sveitarfélaga til að tryggja jafnrétti í íþróttum í íslenskri lögfræði. 

Það er markmið þeirra Hafrúnar, Margrétar og Bjarna að verkefnið varpi ljósi á núverandi stöðu kynjanna á sviði sem lítt hefur verið rannsakað. Auk þess sé verkefnið til þess fallið að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu með því að draga fram upplýsingar sem leikmenn og þjálfarar geta nýtt sér í samningaviðræðum við íþróttafélög.

Til afmörkunar mun rannsóknin einvörðungu skoða stöðu jafnréttismála í handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu en það eru þær hópíþróttir sem flestir iðka á Íslandi. Ef vel heppnast til með rannsóknina verður framhaldsrannsókn gerð þar sem jafnréttismál innan annarra íþróttagreina hérlendis verða teknar til skoðunar.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Jafnréttisstofu, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélaga Íslands (UMFÍ) og Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR). Síðastliðinn júní hlaut verkefnið styrk úr Jafnréttissjóði og áður hafði Íþróttasjóður ríkisins veitt styrk. Fylgjast má með verkefninu á Facebook-síðunni:

https://www.facebook.com/kynjajafnretti  

Hafrún KristjánsdóttirHafrún KristjánsdóttirBjarni Már MagnússonBjarni Már Magnússon
Margrét Lilja GuðmundsdóttirMargrét Lilja Guðmundsdóttir