Fréttir eftir árum


Fréttir

Rannsakar sköpunargleðina

19.1.2015

Birna Dröfn BirgisdóttirMargt bendir til þess að árangur í rekstri megi að einhverju leyti rekja til þeirrar sköpunargleði sem tekst að vekja innan veggja fyrirtækja. Sköpunargleðin er rannsóknarefni Birnu Drafnar Birgisdóttur, doktorsnema við viðskiptadeild HR en að hennar sögn eru rannsóknir á því hvernig jákvæð mannauðsstjórnun og sköpunargleði tengjast tiltölulega skammt á veg komnar en séu jafnframt ótrúlega spennandi.

Birna sagði Fréttablaðinu frá nýjustu niðurstöðum í rannsókn sinni fyrir stuttu. Þar segir hún í stuttu máli frá könnun sem hún gerði meðal starfsfólks bráðamóttöku Landspítalans. Niðurstöður hennar gefa til kynna að ríflega tveir af hverjum þremur starfsmönnum bráðamóttökunnar telji sig skapandi og að sköpunargleði sé mikilvæg í þeirra huga.

„Það kom mér skemmtilega á óvart hvað starfsfólkið upplifir sig skapandi,“ segir Birna Dröfn.

Hún segir að mörgum hugnist illa hugmyndin um skapandi starfsfólk á bráðamóttöku því margir misskilji hvað sköpun er. Samkvæmt skilgreiningu sé sköpunargleði þó einfaldlega hugsanamynstur sem leiði af sér nýjar og nytsamlegar hugmyndir. Sköpunargleði meðal starfsfólks spítala lýsi sér með ýmsum hætti. „Til dæmis að til að finna nýjar leiðir til að koma sjúklingum fyrir þegar deild er full eða finna nýjar leiðir til að eiga betri samskipti við sjúklinga og samstarfsfólk,“ segir Birna Dröfn.

Hún segir að niðurstöður könnunarinnar bendi til að yfirmenn geti ýtt undir sköpunargleði. „Leiðtogastíllinn þjónandi forysta, þar sem stjórnandi einbeitir sér að því að efla samstarfsfólk sitt, virðist ýta undir sköpunargleði.“

Rannsóknir sýna að efla má sköpunargleði með ýmsu móti á vinnustöðum. Fyrirtækjamenningin spilar þar stóran þátt og mikilvægt er að yfirmenn séu opnir fyrir nýjum hugmyndum. Þá gildir að starfsmenn finni að hugmyndum þeirra sé vel tekið og þeim fylgt eftir. 

Birna Dröfn er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá HR og meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Griffith háskóla í Ástralíu.

Lesa viðtalið við Birnu á vísi.is